Fara í efni
Knattspyrna

Sérprentað upplag í ár með KA-forsíðu

Bókin Íslensk knattspyrna 2024 er gefin út með tveimur mismunandi kápum. Hin hefðbundna er með myndum af Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvennaflokki og karlaflokki en einnig prentað sérstakt upplag af bókinni með mynd af bikarmeisturum KA á kápunni. KA-bókin verður eingöngu til sölu hjá KA.
 
Víðir Sigurðsson blaðamaður, höfundur bókarinnar, greinir frá þessu á Facebook í kvöld.
 
„Sögur útgáfa er útgefandi bókarinnar eins og undanfarin fimm ár og kápurnar eru tvær að þessu sinni. Íslandsmeistarar Breiðabliks í kvenna- og karlaflokki eru á kápu hinnar hefðbundnu útgáfu sem fer í almenna sölu en bikarmeistarar KA eru á kápunni í sérprentuðu upplagi sem verður aðeins til sölu hjá KA á Akureyri,“ segir Víðir á Facebook.
 
Einu sinni áður hefur bókin verið prentuð með tveimur mismunandi kápum. Það var árið 2022. Mynd af Íslands- og bikarmeisturum Vals í kvennaflokki prýddi forsíðu hefðbundnu útgáfunnar en á þeirri sérprentuðu var mynd af Íslandsmeisturum Breiðabliks í karlaflokki.
 
Þetta er 44. árið sem Íslensk knattspyrna er gefin út. „Bókin er sú stærsta til þessa, 304 blaðsíður, sextán síðum stærri en undanfarin ár, enda verður umfang íslenska fótboltans sífellt meira með hverju árinu sem líður. Myndirnar munu vera 452, ef ég hef talið rétt,“ segir Víðir Sigurðsson í færslunni á Facebook.