Fara í efni
Knattspyrna

Sandra María – mörg eftirminnileg mörk

Sandra María Jessen, Stephany Mayor og Hulda Ósk Jónsdóttir fagna eftir eitt allra eftirminnilegasta mark Söndru á ferlinum. Hún braut þá ísinn gegn FH í lokaumferðinni 2017, þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari. Hinar myndirnar eru teknar sumarið 2012. Þór/KA varð einnig Íslandsmeistari það ár. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen skoraði tvívegis í 4:1 sigri á Stjörnunni í Garðabæ í gær, í Bestu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, eins og Akureyri.net greindi frá. Fyrra markið var það eitt hundraðasta sem hún skorar í deildinni og mörkin eru því orðin alls 101, í 161 leik.

Sandra María er fyrsti Akureyringurinn sem brýtur 100 marka múrinn í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu með mörkum fyrir Akureyrarlið. Enginn annar hefur reyndar komist nálægt því, en Rakel Hönnudóttir, fyrrverandi fyrirliði Þórs/KA, gerði 125 mörk í efstu deild á glæsilegum ferli; 74 þeirra fyrir Þór/KA en 51 fyrir Breiðablik.

Full ástæða er til að líta yfir farinn veg á þessum sögulegu tímamótum og rifja upp nokkur merkileg augnablik á ferli Söndru Maríu Jessen, þeirrar snjöllu knattspyrnukonu.
_ _ _

  • EFTIRMINNILEGASTA MARKIÐ?

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftirminnilegasta mark Söndru María í deildarkeppninni er líklega fyrra mark Þórs/KA í 2:0 sigri á FH á Þórsvellinum, í lokaumferð Íslandsmótsins 28. september 2017. Þór/KA varð að vinna til að verða Íslandsmeistari en lengi vel gekk hvorki né rak.

Þungbúið var, hellidemba og kalt og Þór/KA átti í miklu basli með að skapa færi gegn virkilega sterkum varnarmúr FH. Markalaust var allt þar til um það bil korter var eftir. Þá braut Sandra María ísinn; Anna Rakel Pétursdóttir sendi inn á vítateig af vinstri kantinum og Sandra María náði að teygja sig með tilþrifum í boltann, eins og sjá má á myndinni að ofan, og skora. Anna Rakel í fjarska fyrir miðri mynd.

Gífurlegur fögnuður braust út, bæði innan vallar, á varamannabekknum og á meðal áhorfenda. Leikmenn Þórs/KA fagna hér að neðan. Það var svo hin frábæra Stephany Mayor sem gulltryggði sigurinn og Íslandsmeistaratitilinn með öðru marki, aðeins fjórum mínútum eftir að Sandra skoraði.


_ _ _

  • FYRSTA MARKIÐ

Sandra var 16 ára þegar hún skoraði í fyrsta sinn í efstu deild Íslandsmótsins. Hún gerði þá fyrsta markið í 4:2 sigri á Breiðabliki í Kópavogi, 28. júní 2011. Hér má sjá úrklippu úr Morgunblaðinu.


_ _ _

Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • 50. MARKIÐ

Sandra skorar 50. markið í efstu deild á myndinni að ofan. Þetta var síðasta markið í 4:0 sigri á Val á Þórsvellinum 6. september árið 2016.
_ _ _

  • 100. MARKIÐ

Fyrra markið sem Sandra María gerði í 4:1 sigrinum á Stjörnunni í Garðabæ í gær. Markið kom á 30. mínútu. Agnes Birta Stefánsdóttir skaut að marki langt utan af velli og Sandra stýrði boltanum rétta leið úr miðjum vítateignum.
_ _ _

Sandra María gerði tvö mörk í báðum leikjunum gegn KR sumarið 2015. Hér fagna leikmenn Þórs/KA seinna markinu í seinni leiknum (2:0 á heimavelli). Sandra lengst til vinstri, þá Gígja Valgerður Harðardóttir, Karen Nóadóttir, Anna Rakel Pétursdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir og Ágústa Kristinsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • TVÖ MÖRK Í LEIK

Sandra hefur 14 sinnum gert tvennu í einum og sama leiknum. Það gerði hún fyrst 10. júní 2012, árið sem Þór/KA varð Íslandsmeistari hið fyrra sinni. Einu sinni bætti hún reyndar um betur og gerði þrjú mörk í leik það sumar.

Hér er listi yfir tveggja marka leikina.

2012

  • 10. júní, Afturelding - Þór/KA 0:4
  • 3. júlí, Selfoss - Þór/KA 2:6
  • 10. júlí, Þór/KA - Fylkir
  • 9. ágúst, Þór/KA - FH 6:0

2013

  • 1. júlí, ÍBV - Þór/KA 3:2
  • 13. ágúst, Þór/KA - HK/Víkingur 3:1
  • 11. september, Breiðablik - Þór/KA 1:5
  • 14. september, Þór/KA - ÍBV 3:1

2015

  • 1. júní, KR - Þór/KA 2:4
  • 11. ágúst, Þór/KA - KR 2:0

2022

  • 23. maí, ÍBV - Þór/KA 5:4
  • 14. september, Þór/KA - ÍBV 3:3

2024

  • 2. maí, Þór/KA - Þróttur 2:1
  • 15. júní, Stjarnan - Þór/KA 1:4

_ _ _

Sandra María fagnar þriðja marki sínu í 5:0 sigri á Grindavík 16. júní 2017. Í dag eru sem sagt nákvæmlega sjö ár frá þessum leik. Þór/KA varð Íslandsmeistari þetta ár. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • ÞRJÚ MÖRK Í LEIK

Sandra María hefur fjórum sinnum gert þrjú mörk í einum og sama leiknum í efstu deild Íslandsmótsins.

  • 4. september 2012, Þór/KA – Selfoss 9:0
  • 18. maí 2016, Þór/KA – ÍA 4:0
  • 16. júní 2017, Þór/KA – Grindavík 5:0
  • 5. maí 2018, Grindavík – Þór/KA 0:5

_ _ _

Sandra María eftir að hún gerði fjórða markið gegn FH í Hafnarfirði fyrr í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • FJÖGUR MÖRK Í LEIK

Sandra María hefur einu sinni gert fjögur mörk í leik í efstu deild Íslandsmótsins. Það var fyrr í sumar þegar hún gerði öll mörkin í 4:0 sigri á FH á heimavelli Hauka í Hafnarfirði.

  • 27. apríl 2024, FH – Þór/KA 0:4

Sandra María fjórða markinu gegn FH í sumar ásamt Huldu Ósk Jónsdóttur. Mynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

  • FYRSTA LANDSLIÐSMARKIÐ

Sandra María á 42 A-landsleiki að baki og hefur gert sex mörk. Það fyrsta skoraði Sandra 16. júní árið 2012, síðasta markið í 3:0 sigri á Ungverjum á Laugardalsvelli, í undanriðli Evrópumótins. Hún kom inn á undir lokin og skoraði með sinni fyrstu snertingu! Lýsinguna á markinu má sjá á meðfylgjandi úrklippu úr Morgunblaðinu.

_ _ _

  • AFTUR FYRSTA SNERTING

Annar landsleikur Söndru María var vináttuleikur Skota og Íslendinga (1:1) 4. ágúst 2012 á Cappielow Park, heimavelli Greenock Morton í Skotlandi.

Aftur kom hún inná sem varamaður, að þessu sinni á 72. mínútu, og aftur skoraði Sandra María í fyrsta skipti sem honum kom við boltann í leiknum! Úrklippan hér að neðan er úr Morgunblaðinu.

_ _ _

  • „ERFITT AÐ LESA“ SÖNDRU

Þóra Björg Helgadóttir sagði við Morgunblaðið eftir leikinn í Skotlandi að Sandra væri alveg ísköld og langt væri síðan hún hefur séð svona framherja. „Ég sjálf hef mætti henni á æfingu og það er rosalega erfitt að lesa hana,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn.

_ _ _

  • MÖRK OG LEIKIR

Sandra María Jessen einungis leikið með Þór/KA hér á landi. Hér má sjá leikjafjölda og hve mörg mörk hún hefur skorað í efstu deild.

  • 2011 – 152
  • 2012 – 1818
  • 2013 – 149
  • 2014 – Sandra sleit krossband í hné í lok mars og missti af öllu keppnistímabilinu.
  • 2015 – 1813
  • 2016 – 189
  • 2017 – 158
  • 2018 – 1814
  • Sandra María lék með Bayer Leverkusen 2019, 2020 og 2021.
  • 2022 – 188
  • 2023 – 198
  • 2024 – 812

_ _ _

Myndir: Skapti Hallgrímsson

  • SUMARIÐ 2012

Félag áhugafólks um kvennaknattspyrnu úthlutaði verðlaunum í byrjun júní árið 2012, m.a. var Sandra María útnefnd „bjartasta vonin“. Vinstri myndin var tekin þegar hún fékk afhenta viðurkenningu vegna þess. Myndin til hægri er úr 2:0 sigurleik Þórs/KA á Breiðabliki 4. júní. Jafnöldrurnar Sandra María og Elín Metta Jensen, leikmaður Vals, báðar fæddar snemma árs 1995 og því 17 ára, urðu markahæstar í deildinni þetta sumar, gerðu báðar 18 mörk í 18 leikum.