Fara í efni
Knattspyrna

Sameinumst enn frekar um stelpurnar í Þór/KA

Lara Ivanusa (15), Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen fagna marki þeirrar síðastnefndu í bikarleiknum gegn Breiðabliki í gærkvöldi. Margrét er úr KA og Sandra María úr Þór en enginn veltir því líklega fyrir sér dags daglega. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari knattspyrnuliðs Þórs/KA, segir að fyrir sig sem þjálfara skipti mestu máli hvað kemur leikmönnum og liðinu til góða. Þetta kemur fram í grein hans sem birtist á Akureyri.net í morgun.

Tilefni greinarinnar er viðtal við Jóhann sem birtist á vefnum fotbolti.net á dögunum í aðdraganda undanúrslitaleiks Þórs/KA og Breiðabliks sem fram fór á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í gærkvöldi. Þar var þjálfarinn m.a. spurður hvort aðrir kostir hefðu verið kannaðir varðandi leikstað og hann kveðst hafa „komist óheppilega að orði eins og svo oft áður er ég svaraði spurningu um möguleikann á að færa leikinn yfir á Greifavöllinn á Akureyri.“ Greifavöllurinn er heimavöllur KA.

Jóhann Kristinn segir svar hans hafa vakið hörð viðbrögð og inn í umræðuna blandast vangaveltur um viðhorf hans og annarra sem starfa með stelpunum í Þór/KA gagnvart öðru félaginu eða leikstað. Hann fullvissar fólk um að ekkert slíkt sé í gangi.

„Ég vona að við sem að liðinu stöndum, félögin, og aðrir velunnarar fótboltans á Akureyri sameinist enn frekar um stelpurnar okkar í Þór/KA og styðji þær og þeirra framgöngu í baráttunni. Þær og aðrar stelpur sem eru að vaxa úr grasi í félögunum eiga það skilið að við stöndum vörð um starfið. “

Smellið hér til að lesa grein Jóhanns Kristins