Fara í efni
Knattspyrna

Nauðsynlegur og afar sannfærandi sigur

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði bæði mörk KA á Ísafirði í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sóttu þrjú gríðarlega mikilvæg stig til Ísafjarðar í dag þegar þeir unnu lið Vestra 2:0 í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Sigurinn var mjög sanngjarn.

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði bæði mörk KA í dag, það fyrra úr víti seint í fyrri hálfleik, eftir að brotið var á Viðari Erni Kjartanssyni, og hið síðara stundarfjórðungi fyrir leikslok eftir laglega sókn og sendingu Harley Willard.

KA-menn urðu fyrir því áfalli að spænski miðjumaðurinn Rodri fór meiddur af velli seint í fyrri hálfleik. Hann togaði hressilega í leikmann Vestra til að stöðva hraða sókn en ekki vildi betur til en svo að hann virtist fara úr axlarlið við það. Fékk gult spjald fyrir brotið og var síðan væntanlega komið beint undir læknishendur.

Fyrsti hálftíminn var heldur rólegur og hvorugt lið náði að skapa neina hættu en KA-menn, sem lék undan töluverðum vindi, voru þó sterkari og síðustu 15 mínúturnar urðu þeir aðgangsharðari við marka heimamanna.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Viðar Örn Kjartansson góða sendingu inn í vítateig, hann hugðist leika á Eskelinen markvörð en Svíinn braut á KA-manninum. Helgi Mikael Jónasson dómari var ekki í neinum vafa og dæmd víti sem Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr af miklu öryggi; þrumaði boltanum neðst í markið vinstra megin, alveg út við stöng.

Ísfirðingar voru stálheppnir að fá ekki dæmt á sig annað víti áður en fyrri hálfleikurinn var allur. Aftur komst Viðar Örn inn á teig, varnarmaður togaði í hann og truflaði þannig að framherjinn náði ekki boltanum en dómarinn sá ekki hvers kyns var.

KA-menn stjórnuðu leiknum í raun allan seinni hálfleikinn þegar þeir léku á móti vindinum. Þeir voru vel á varðbergi, heimamenn komust lítt áleiðis og stundarfjórðungi fyrir leikslok gerði Hallgrímur seinna markið. Þá varð endanlega ljóst að þrjú stig voru í höfn. Harley Willard sendi boltann á Hallgrím sem klobbaði varnarmann – renndi boltanum milli fóta hans og stakk sér framhjá honum, lék inn í teig og skoraði framhjá Eskelinen sem kom út á móti honum. Mjög laglega gert.

Sigurinn var afar sanngjarn sem fyrr segir en í blálokin munaði í tvígang mjóu við KA-markið; fyrst skallaði einn Vestramaður í þverslá og  nokkrum mínútum síðar náðu KA-menn að henda sér fyrir skot í markteignum.

Menn tókust hraustlega á í dag og Helgi Mikael dómari hafði í nógu að snúast. Hann veifaði gul spjaldinu hvorki meira né minna en 12 sinnum, þar af fengu átta KA-menn áminningu! Að auki fór rauða spjaldið tvisvar á loft; Fatai Gbadamosi, leikmaður Vestra, var rekinn af velli fyrir að sparka í mótherja þegar komið var í uppbótar tíma og í kjölfarið fékk liðsstjóri Vestra að sjá rauða spjaldið fyrir mótmæli.

Með sigrinum spyrntu KA-strákarnir sér frá neðstu liðunum. Þeir eru komnir upp í áttunda sæti, hafa 15 stig að loknum 14 leikjum. KR er þar fyrir neðan með 14 stigi, einnig eftir 14 leiki, HK hefur 13 stig en á leik til góða – gegn FH á morgun – Vestri er næst neðstur með 11 stig úr 14 leikjum og Fylkir er í neðsta sæti með átta stig og mætir ÍA á morgun.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna. Reyndar er ekki búið að ljúka við hana þegar þetta er skrifað en það hlýtur að verða gert von bráðar.