Fara í efni
Knattspyrna

Veisluhöldum lokið á fótboltavöllunum

Leikmaður Aftureldingar brunar með boltann að marki á N1 mótinu í dag en Skagamaðurinn gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að sá rauði skori. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Mikið hefur verið hlaupið, sparkað, skorað og fagnað á Akureyri síðustu daga á fótboltamótunum tveimur sem hafa fest sig rækilega í sessi í bænum þessa fyrstu helgi júlímánaðar. 

KA heldur N1 mót fyrir 11 og 12 ára stráka í 5. flokki þar sem keppendur í ár voru um 2.000, margir þjálfarar og fararstjórar eru vitaskuld með í för, og mikill fjöldi foreldra og annarra ættmenna fylgir fótboltamönnunum ungu jafnan eftir. KA-menn gera ráð fyrir að um 10.000 manns komi til bæjarins vegna mótsins ár hvert. Keppni á N1 mótinu hófst á miðvikudaginn og úrslit réðust í hinum ýmsu deildum síðdegis í dag. 

Marki fagnað á Pollamóti Samskipa og Þórs í dag.

Þórsarar halda þessa helgi Pollamót Samskipa þar sem eldri kynslóðin reynir með sér í sömu fallegu íþróttinni, karlar og konur, og keppendur þar munu hafa verið a.m.k. 500. Pollamótið fer fram föstudag og laugardag. Gleðin var ekki síður við völd á Þórssvæðinu í Glerárhverfi en á svæði KA á Brekkunni og Þórsveislunni lýkur í nótt með árlegu Pallaballi í Boganum. Þar heldur Páll Óskar Hjálmtýsson uppi stuðinu frá kl. 23.00 í kvöld til kl. 3.00 í nótt. Sérstakur gestur hans að þessu er BlazRoca, Erpur Eyvindarson.

Veðrið lék því miður ekki við Akureyringa og gesti þeirra að þessu sinni, en reyndar rættist úr og í dag enginn heyrðist kvarta. Sólin lét sjá sig, hann hékk þurr og vart hreyfði vind.

Auðvitað gengur allt betur þegar veðrið er eins og best verður á kosið, en þegar öllu er á botninn hvolft er það þó ekki aðalatriðið. Snæfríður Ingadóttir fór á stúfuna fyrir Akureyri.net á fimmtudaginn og ræddi við nokkra foreldra á N1 mótinu. Ein móðirin sagði þá: „Veðrið er ekkert spes en maður er bara vel klæddur. Strákunum er alveg drullusama, þeir kvarta aldrei. Það er frekar að veðrið hafi áhrif á foreldrana.“

Grein Snæfríðar frá fimmtudeginum: Föðurland, regnhlíf og rétta hugarfarið

Fleiri myndir síðar