Fara í efni
Knattspyrna

Karen María í fyrsta æfingahópi Þorsteins

Karen María Sigurgeirsdóttir skýtur að marki KR á Þórsvellinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Karen María Sigurgeirsdóttir, leikmaður Þórs/KA, er í fyrsta æfingahópi nýs landsliðsþjálfara í fótbolta, Þorsteins Halldórssonar. Hann valdi í dag 26 leikmenn sem taka þátt í æfingum 16. til 19. febrúar í Kórnum í Kópavogi. Einungis voru valdir leikmenn sem spila á Íslandi.

Tveir aðrir Akureyringar og fyrrum samherjar Karenar Maríu hjá Þór/KA eru í æfingahópnum; Anna Rakel Pétursdóttir sem er nýgengin til liðs við Val frá IK Uppsala í Svíþjóð og Andrea Mist Pálsdóttir, sem er samningsbundin FH en hefur verið lánuð Breiðabliki í sumar.

Karen, sem verður tvítug á árinu, hefur ekki verið með A-landsliðinu áður. Hún á fjóra leiki að baki með U19 landsliðinu, þar sem hún hefur leikið stórt hlutverk og skorað fjögur mörk.

Í gær var ákveðið að kvennalandsliðið færi ekki á Tournoi de France, æfingamót í Frakklandi, í ljósi slæmrar stöðu vegna Covid-19 á meginlandinu. Mótið átti að vera 17. til 23. febrúar en í staðinn kallar Þorsteinn saman hóp til æfinga.

HÉR má sjá allan landsliðshópinn