Fara í efni
Knattspyrna

KA sækir Stjörnuna heim í Bestu deild karla

Ásgeir Sigurgeirsson skoraði annað markið á 90. mínútu í 2-1 sigri KA gegn Stjörnunni á heimavelli í ágúst í fyrra og KA-menn þá einum færri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA mætir liði Stjörnunnar á Stjörnuvellinum í Garðabæ, Samsung-vellinum, í 8. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag kl. 17. 

KA-mönnum tókst loks að vinna sinn fyrsta leik í deildinni í sumar í 7. umferðinni og hafa þá unnið tvo leiki í röð að meðtöldum sigri í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Í dag er tækifærið til að tengja saman sigra, eins og stundum er sagt, og bæta þremur stigum í safnið. Eflaust hafa Garðbæingar einnig hugsað sér að taka öll stigin, en þeir sitja í 8. sæti deildarinnar með tíu stig. KA er í 11. sæti með fimm stig.

Þessi lið unnu hvort sinn leikinn í viðureignum þeirra í Bestu deildinni í fyrra. KA-menn riðu ekki feitum hesti frá viðureign liðanna í Garðabænum í byrjun júní, en þar fór Stjarnan með 4-0 sigur af hólmi. KA vann hins vegar heimaleik sinn síðar í fyrrasumar, 2-1, á dramatískan hátt með sigurmarki á 90. mínútu eftir að þeir höfðu misst mann af velli.