Fara í efni
Knattspyrna

KA-menn heim með þrjú stig úr Árbænum

Steinþór Már Auðunsson – Stubbur – og Daníel Hafsteinsson í bikarúrslitaleiknum á dögunum. Steinþór var öryggið uppmálið í gær og varði svo vítaspyrnu á síðustu sekúndunni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði botnlið Fylkis 3:1 í Árbænum í gær í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu. KA-menn komust þar með upp fyrir Framara sem voru rassskelltir af KR-ingum, 7:1; KA er því í sjöunda sæti, því efsta í keppni neðri sex liðanna með 31 stig en Framarar hafa 30.

KA-menn sýndu ekki sínar bestu hliðar gegn frísku Fylkisliði en fóru þó sáttir heim með þrjú stig í sarpinum.

Leikurinn byrjaði með látum því Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrir KA aðeins hálfri mínútu eftir að dómarinn flautaði til leiks. Eftir laglegt spil á hægri kantinum lék Ásgeir inn í teig og sendi boltann í netið með föstu skoti. 

Fylkismenn jöfnuðu á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Benedikt Daríus Garðarsson lék inn í vítateig vinstra megin og þrumaði knettinum fyrir markið, boltinn fór í Kára Gautason sem sótti að Benedikt og þaðan í netið án þess að Steinþór Már markvörður kæmi nokkrum vörnum við. Markið er skráð sem sjálfsmark Gauta.

Fylkir fékk dauðafæri á 65. mín. þegar Emil Ásmundsson slapp einn í gegn en Steinþór Már varði mjög vel. Hann var aftur vel á verði mínútu síðar og aðeins nokkrum augnablikum eftir það fékk KA víti eftir skyndisókn. Viðar Örn Kjartansson lék á Ólaf markvörð sem felldi hann og dómarinn benti að sjálfsögðu á vítapunktinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók vítið og skoraði af miklu öryggi og Viðar Örn gerði svo endanlega út um vonir Fylkismenna með þriðja markinu á 78. mín. eftir frábæra sendingu Hallgríms Mars inn fyrir vörnina.

Á lokasekúndunum fengi Fylkismenn víti og KA-maðurinn Dagur Ingi Valsson fyrir brotið, sem virkaði satt að segja sakleysislegt, en Steinþór Már kórónaði góða frammistöðu í leiknum og raun í allt sumar með því að verja vítaspyrnuna.

  • Dagbjartur Búi Davíðsson lék í gær í fyrsta skipti í Bestu deildinni. Hann kom inn á fyrir Ásgeir Sigurgeirsson og lék síðasta korterið. Dagbjartur Búi er 18 ára.

Leikskýrslan

Staðan