Fara í efni
Knattspyrna

KA-menn eiga harma að hefna gegn Vestra

Bjarni Aðalsteinsson kastar sér fyrir skot Gunnars Jónasar Haukssonar leikmanns Vestra í fyrri deildarleik KA við Ísafjarðarliðið í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA leikur gegn Vestra í dag á Ísafirði í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 14.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

KA-menn eiga harma að hefna því Ísfirðingarnar unnu fyrri leik liðanna í sumar 1:0 á Greifavelli KA í 3. umferð deildarinnar. Þá skoraði Jeppe Gertsen eina markið þegar komið var í uppbótartíma leiksins; það var fyrsta mark Vestra í deildinni og fyrstu stig liðsins í efstu deild.

Liðin mættust aftur á Greifavellinum 15. maí í bikarkeppninni og þá höfðu KA-menn betur, 3:1. Jeppe Gertsen skoraði aftur, kom gestunum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks en KA-menn sneru blaðinu við; Rodri og Hans Viktor Guðmundsson skoruðu snemma í seinni hálfleik og Bjarni Aðalsteinsson gerði þriðja markið.

Vestri er í efra fallsætinu sem stendur með 11 stig að loknum 13 leikjum en KA er einu sæti ofar með einu stigi meira. Leikurinn í dag er því gríðarlega mikilvægur; sannkallaður sex stiga leikur eins og stundum er sagt. Með sigri yrði KA með 15 stig og færi úr 10. sæti í það áttunda, upp fyrir bæði KR og HK.

KA hefur verið á góðu skriði undanfarið. Liðið vann þrjá leiki í röð, Fram og HK í deildinni og Val í undanúrslitum bikarkeppninnar, og gerði jafntefli við FH á útivelli í síðustu umferð í deildinni.

Vestri gerði jafntefli við Breiðablik á heimavelli í síðustu umferð en hafði áður tapað þremur leikjum í röð, fyrir Fylki á útivelli og bæði Val og Fram heima.