Fara í efni
Knattspyrna

KA-menn bitu aftur í súra eplið – MYNDIR

Myndir: Þórir Ó. Tryggvason og Skapti Hallgrímsson

KA-menn urðu að játa sig sigraða á laugardaginn þegar FH-ingar sóttu þá heim í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Eftir að FH komst í 2:0 jafnaði KA en gestirnir gerðu eitt mark til og unnu 3:2.

KA gerði 1:1 jafntefli við HK í fyrstu umferð, einnig á heimavelli, og er því aðeins eitt stig. Frammistaða liðsins hefur verið viðunandi að mörgu leyti, klaufagangur í varnarleik hefur hins vegar kostað ódýr mörk og hinum megin gengur illa að nýta færin. Það er ekki góð uppskrift að árangri en vert að hafa í huga að deildin er nýhafin og 20 umferðir eftir þar til henni verður skipt í tvennt.

Næsti leikur KA er einnig á heimavelli; nýliðar Vestra frá Ísafirði koma í heimsókn um næstu helgi.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

FH TEKUR FORYSTU
FH fékk víti á 18. mín. eftir að Rodri braut klaufalega á Birni Daníel Sverrissyni. Vuk Oskar Dimitrijevic stillti boltanum upp á vítapunktinum og skoraði af öryggi. Jajalo markvörður kastaði sér í rangt horn.

_ _ _

KA ÓGNAR - FH SKORAR
Þegar fyrri hálfleikur var liðlega hálfnaður náði KA álitlegri sókn, Ásgeir Sigurgeirsson fékk sendinu inn á teig, gat komist einn á móti markverðinum en missti boltann aðeins of langt frá sér. FH-ingar brunuðu fram, Kjartan Kári Halldórsson fékk boltann inn fyrir vörnina og þrumaði að marki, Jajalo varði en boltinn fór til hliðar þar sem Sigurður Bjartur Hallsson var einn fyrir opnu marki og skoraði auðveldlega.

_ _ _

SVEINN SKALLAR Í ÞVERSLÁ
Nokkrum mínútum eftir annað mark FH skallaði KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson í þverslá marks gestanna eftir góða fyrirgjöf frá hægri. Sindri markvörður var óákveðinn, Sveinn stökk hærra og var á undan í boltann en hafði ekki heppnina með sér og FH-ingar náðu að hreinsa frá.

_ _ _

ÁSGEIR MINNKAR MUNINN
Aðeins þremur mín. eftir að Sveinn skallaði í þverslá skoraði Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA. Elfar Árni fékk boltann við vítateigshornið hægra megin, sendi út í teig þar sem Ásgeir þrumaði að marki og Sindri kom engum vörnum við.

_ _ _

BJARNI JAFNAR FYRIR KA
Sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Bjarni Aðalsteinsson jafnaði fyrir KA. Aftur gerði Sindri markvörður FH sig sekan um klaufaskap. Boltinn var sendur fyrir markið, Sindri virtist geta gripið hann auðveldlega en tókst ekki heldur barst boltinn til Bjarna vinstra megin í teignum sem þakkaði kærlega fyrir sig með því að þruma honum í fjærhornið. Þrátt fyrir þokkalega fimleikatakta tókst leikmanni FH við markið ekki að komast fyrir boltann.

_ _ _

SIGURMARK FH
Skömmu eftir jöfnunarmark KA kom sigurmark FH. Kjartan Kári Halldórsson fékk boltann vel fyrir utan vítateig, Sigurður Bjartur Hallsson bað samherja sinn með handahreyfingu að senda inn í teig – eins og sjá má á efstu myndinni hér að neðan – en var áreiðanlega ánægður að Kjartan varð ekki við þeirri bón heldur skaut að marki; Jajalo markvörður var illa á verði og boltinn fór neðst í bláhornið við stöngina nær.

_ _ _

DAUÐAFÆRI KJARTANS
Framherjinn Viðar Örn Kjartansson kom inná fyrir Ásgeir Sigurgeirsson þegar um 20 mín. lifðu leiks. Hann var einu sinni nálægt því að skora; þegar klukkan sýndi að 87 mín. væru liðnar skallaði Hans Viktor KA-maður að marki eftir hornspyrnu, Sindri FH-ingur varði glæsilega, boltinn hrökk út í teig til Hrannars Björns sem þrumaði í átt að Viðari sem var aleinn fyrir miðju marki og reyndi að stýra boltanum rétta leið en brást bogalistin. Boltinn fór framhjá markinu.