Fara í efni
Knattspyrna

Heimaleikir KA og Þórs skarast aftur í dag

Viðar Örn Kjartansson, til vinstri, skoraði gegn KR og Val á dögunum en missti af síðasta leik KA, gegn Fylki, vegna meiðsla. Aron Einar Gunnarsson hefur komið við sögu í síðustu tveimur leikjum Þórs. Myndir: Skapti Hallgrímsson og Þórir Tryggvason

Karlalið KA og Þórs leika bæði á heimavelli í dag á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Í annað skipti á skömmum tíma skarast heimaleikir liðanna sem er afar óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Jafnvel mætti tala um dónaskap.

Mikið er í húfi hjá báðum félögum. KA er í hörkukeppni um að ná sjötta sæti Bestu deildarinnar og Þórsarar hafa sogast niður í fallbaráttu Lengjudeildarinnar en eiga þó enn tölfræðilega möguleika á fimmta sæti, sem gefur þátttökurétt í umspili um sæti í Bestu deildinni að ári.

Leikir dagsins:

16.00 Þór - Fjölnir á Þórsvellinum (VÍS vellinum)

17.00 KA - Stjarnan á KA (Greifavelli)

Sex efstu lið Bestu deildar eftir 22 umferðir halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn en þau sex neðri mætast einnig innbyrðis í einfaldri umferð og þegar upp verður staðið falla tvö neðstu niður í Lengjudeildina. Rétt er að taka fram að lið halda öllum stigum þegar keppnin í efri og neðri hluta hefst.

Liðin í mestu baráttunni um sjötta sæti Bestu deildar eru:

4. ÍA 18 leikir - 28 stig

5. FH 18 leikir - 28 stig

6. Fram 18 leikir - 26 stig

7. Stjarnan - 18 leikir - 24 stig

8. KA - 18 leikir - 23 stig

Þannig vill til að þrír af fjórum leikjum sem KA á eftir eru gegn liði í þessari baráttu, þannig að spennan verður mikil. KA á þessa leiki eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt:

  • KA - Stjarnan
  • Fram - KA
  • KA - Breiðablik
  • ÍA - KA

Fallbarátta er staðreynd hjá Þórsurum í augnablikinu. Mótherji dagsins, Fjölnir, er efst í deildinni eins og er. Þórsarar eiga einnig eftir að mæta ÍR, sem er nú í fjórða sæti, og þremur neðstu liðunum, Leikni, Dalvík/Reyni og Gróttu.

Neðstu liðin eru nú þessi:

  • Grindavík - 17 leikir - 20 stig
  • Þór - 17 leikir - 18 stig
  • Leiknir R - 17 leikir - 17 stig
  • Dalvík/Reynir - 17 leikir - 13 stig
  • Grótta - 17 leikir - 13 stig

Þetta eru leikirnir sem Þór á eftir:

  • Þór - Fjölnir
  • Leiknir - Þór
  • Þór - ÍR
  • Þór - Dalvík/Reynir
  • Grótta - Þór