Knattspyrna
Hallgrímur aðstoðar Arnar og leikur áfram
12.12.2020 kl. 09:24
Arnar Grétarsson og Hallgrímur Jónasson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Hallgrímur Jónasson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA og verður áfram aðstoðarþjálfari auk þess að leika með liðinu. Hallgrímur varð aðstoðarþjálfari Arnars Grétarssonar, sem ráðinn var aðalþjálfari í sumar, og hefur samstarf þeirra gengið afar vel, segir á heimasíðu KA í morgun.
„Hallgrímur sem meiddist illa í bikarleik gegn Leikni í sumar og lék því takmarkað á nýliðnu tímabili mun áfram leika með liðinu en hann hefur spilað alls 29 leiki fyrir KA í deild og bikar og gert í þeim eitt mark. Hallgrímur er hokinn reynslu eftir veru sína í atvinnumennskunni með Lyngby BK, OB, SønderjyskE og GAIS auk þess sem hann hefur leikið 16 leiki fyrir A-landslið Íslands,“ segir á heimasíðu KA.