Fara í efni
Knattspyrna

Glæsimark Fannars en bara eitt stig í safnið

Fannar Daði Malmquist Gíslason gerði mark Þórs á ÍR-vellinum í dag með glæsilegu skoti snemma leiks. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og ÍR gerðu 1:1 jafntefli í Reykjavík í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Afleitt veður setti svip sinn á leikinn; hvasst var og kalt og töluverð rigning, nánast slagviðri um tíma.

Þórsarar byrjuðu af krafti og Fannar Daði Malmquist Gíslason tók forystuna strax á áttundu mínútu með stórglæsilegu marki. Fannar fékk boltann við vítateigshornið vinstra megin og sendi hann í fallegum boga efst í fjærhorn marksins, óverjandi fyrir Vilhelm Þráin markvörð heimaliðsins.

ÍR-ingar fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar Guðjón Máni Magnússon skallaði framhjá markinu úr dauðafæri en Þórsarar voru þó sterkara liðið fyrri hluta leiksins, fengu álitlegar sóknir en sköpuðu ekki verulega hættu.

Heimamenn léku undan sterkum vindi í seinni hálfeik og áðurnefndur Guðjón Máni jafnaði snemma af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf. ÍR-ingar sóttu meira, Þórsarar vörðust lengstum nokkuð aftarlega við erfiðar aðstæður og geta verið sáttir við eitt stig úr þessum bardaga.

Eftir jafnteflið eru Þórsarar með 10 stig í níunda sæti, að loknum níu leikjum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna