Fara í efni
Knattspyrna

Elfar greip tækifærið og gerði bæði mörk KA

Maður dagsins, Elfar Árni Aðalsteinsson – bar fyrirliðabandið og gerði bæði mörkin í 2:1 sigri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Elfar Árni Aðalsteinsson var maður dagsins hjá KA þegar liðið vann Vestra 2:1 á heimavelli í dag í næst síðustu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu. 

Þetta var aðeins í fjórða skipti í sumar sem þessi reyndi framherji fær tækifæri í byrjunarliðinu og hann greip það sannarlega fegins hendi; gerði bæði mörkin í mjög sanngjörnum sigri. Hann hefur þar með gert 45 mörk fyrir KA í efstu deild Íslandsmótsins og 57 alls. Elfar gerði 12 mörk í efstu deild á þeim þremur árum sem hann lék með Breiðabliki á sínum tíma. 

Elfar bar fyrirliðabandið í dag. Samningur hans við KA rennur út eftir tímabilið og úr herbúðum félagsins hefur heyrst að hann sé líklega á förum. Eftir leikinn sagði Elfar þó ekkert ákveðið í þeim efnum.

Byrjun leiksins var lygileg. Vestri byrjaði með boltann en KA-menn náðu honum fljótt og Elfar Árni skoraði þegar aðeins 22 sekúndur voru liðnar! Komst inn fyrir vörn gestanna eftir glæsilegt spil og sendingu Dags Inga. Elfar var einn gegn Eskelinen markverði og skoraði af öryggi.

Elfar Árni kom KA í 2:0 á 23. mínútu, aftur eftir mjög laglegt spil; skoraði þá af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf Ásgeirs Sigurgeirssonar utan af hægri kanti.

KA-menn voru miklu betri allan fyrri hálfleikinn og alls ekki að sjá á gestunum að þeir væru enn í fallhættu. Heimamenn stjórnuðu ferðinni áfram framan af seinni hálfleik og Ásgeir Sigurgeirsson kom boltanum í markið eftir klaufagang Eskelinens en dómararnir komu honum reyndar til bjargar með því að dæma hendi á Ásgeir; það virtist hæpin ákvörðun, markvörðurinn hugðist spyrna fram völlinn en boltinn fór í Ásgeir sem sótti að honum, vissulega í hönd eða jafnvel báðar en ekki var annað að sjá en hann héldi þeim upp við magann.

Aukinn kraftur færðist í leik Vestramanna þegar á leið seinni hálfleikinn en þeir ógnuðu þó aldrei sigri KA-strákanna. Pétur Bjarnason minnkaði muninn með síðustu spyrnu leiksins; kom boltanum í markið af stuttu færi, framhjá Jóhanni Mikael Ingólfssyni sem leisti Steinþór Má markvörð af hólmi fáeinum andartökum áður. Ekkert amaði að Steinþór heldur ákvað Hallgrímur þjálfari að leyfa Jóhanni, sem er 17 ára að fá smjörþefinn af Bestu deildinni í stutta stund og ekki var við hann að sakast í markinu.

Annar ungur KA-maður kom einnig við sögu; miðjumaðurinn Snorri Kristinsson, sem er aðeins 15 ára, leysti Daníel Hafsteinsson af hólmi og lék síðustu 12 mínúturnar eða svo og stóð sig vel.

Eftir leikinn er með KA með 34 stig þegar einn leikur er eftir. Fram hefur 30 stig og mætir HK á morgun, og KR, sem er með 28 stig, mætir Fylki. Í lokaumferðinni um næstu helgi mætast KA og Fram í Reykjavík.

Tímamót! Þessir tveir ungu drengir komu í dag í fyrsta sinn við sögu í Bestu deildinni; Snorri Kristinsson, til hægri, lék í um það bil 12 mínútur og Jóhann Mikael Ingólfsson í um það bil þrjár. Snorri er aðeins 15 ára en Jóhann tveimur árum eldri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Framherjinn Viðar Örn Kjartansson var ekki í leikmannahópi KA í dag. Hann var í banni að því er Hallgrímur þjálfari upplýsti í viðtali við fotbolta.net. Ekki þó hefðbundnu leikbanni af hálfu KSÍ því Viðar hefur aðeins fengið eina áminningu í sumar.
  • Hallgrímur greindi einnig frá því að markvörðurinn Kristijan Jajalo markvörður væri á förum frá KA. Þetta er fimmta ár Jajalo með félaginu en markvörðurinn hefur tilkynnt KA-mönnum að hann hyggist flytja af landi brott.

Leikskýrslan