Fara í efni
Knattspyrna

Dramatík í jafntefli Þórs og Grindavíkur – MYNDIR

Rafael Victor fyrra markinu gegn Grindvíkingum í gærkvöldi. Til vinstri Árni Elvar Árnason. Grindvíkingurinn til er Ian Perelló Machi sem lék með Þór 2022 og framan af sumri í fyrra. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar gengu vonsviknir af velli í gærkvöldi þegar Grindvíkingar komu í heimsókn í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Fengu þó eitt stig því liðin skildu jöfn, 2:2, en gestirnir voru orðnir tveimur færri þegar þeir jöfnuðu fáeinum mínútum fyrir leikslok. Ótrúlega klaufalegt hjá Þórsurum að láta tvö mikilvæg stig þannig fara í súginn, ef svo má segja.

Umhugsunarefni er hversu Þórsliðið var slakt í fyrri hálfleik í gær, nákvæmlega eins og gegn Gróttu í síðustu viku. Leikmenn náðu aldrei að stilla saman strengi og gekk illa að halda boltanum. Kwame Quee skoraði fyrir öflugt lið Grindvíkinga strax á fyrstu mínútu leiksins og fleira gerðist ekki sérlega markvert í fyrri hálfleik, en gestirnir þó miklu betri. Voru mikið með boltann án þess þó að herja á Þórsmarkið.

Sigurður þjálfari gerði þrjár breytingar á Þórsliðinu áður en flautað var til seinni hálfleiks. Út af fóru Sigfús Fannar Gunnarsson, Bjarki Þór Viðarsson og Alexander Már Þorláksson en í þeirra stað komu Vilhelm Ottó Biering Ottósson, Árni Elvar Árnason og Ingimar Arnar Kristjánsson.

Allt annað var að sjá til Þórsara í seinni hálfleik. Þeir voru mun kraftmeiri, mikið með boltann og sóknarleikurinn var fjörlegur. Rafael Victor  jafnaði metin eftir 10 mínútna leik og skoraði aftur á 77. mínútu – fljótlega eftir að einn Grindvíkinganna var rekinn út af fyrir að brjóta illa á markaskoraranum.

Ekki var öll sagan sögð því annar Grindvíkingur fékk að líta rauða spjaldið og var því gert að víkja af velli. Engu að síður tókst þeim að jafna undir lok leiksins, tveimur færri. Þórsarar hljóta að naga sig í handarbökin fyrir að klúðra unnum leik og verða af tveimur mikilvægum stigum. Þeir eru nú í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig en hefðu með sigri verið með 16, jafnir Grindvíkingum og ÍR-ingum.

Dómari leiksins var Twana Khalid Ahmed. Grindvíkingum voru mjög óánægðir með hann í hita leiksins – töldu til dæmis Rafael Victor hafa brotið á Sigurjóni Rúnarssyni fyrirliða í aðdraganda fyrra marks Þórs, hlógu að fyrra rauða spjaldinu og trúðu ekki eigin augum þegar dómarinn sýndi Nuno Malheiro gult spjald fyrir „dýfu“ þegar hann vildi fá vítaspyrnu. Hins vegar var ekki annað að sjá en dómarinn hafi haft rétt fyrir sér í öll skiptin.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
_ _ _

RAFAEL VICTOR JAFNAR
Þór jafnaði 1:1 á 54. mínútu. Boltanum var spyrnt fram hægri kantinn, Sigurjón Rúnarson hljóp til baka, Rafael Victor sótti að honum og Grindvíkingurinn féll við; bjóst við að dæmt yrði á Þórsarann eins og oft er raunin í svona tilfellum. Rafa ýtti honum hins vegar ekki og dómarinn féll ekki í gildruna. Þórsarinn náði boltanum, lék inn í vítateig og skoraði. Það eina sem Sigurjón hafði upp úr krafsinu var gult spjald.


_ _ _

ÁMINNING FYRIR „DÝFU“
Dómarinn áminnti Grindvíkinginn Nuno Malheiro á 62. mín. þegar hann féll með tilþrifum í vítateig Þórsara. Hann komst auðveldlega framhjá Kristófer Kristjánssyni og reyndi síðan að „fiska“ vítaspyrnu; beið eftir snertingunni eins og það er kallað nú til dags, en Kristófer var lagði sig sérstaklega fram um að snerta andstæðinginn ekki. Dómarinn blés í flautuna, ekki til að dæma víti eins og gestirnir gerðu ráð fyrir heldur til að lyfta gula spjaldinu og sýna Malheiro.


_ _ _

RAMOS REKINN ÚTAF
Grindvíkingurinn Eric Vales Ramos reyndi að ná boltanum á undan Rafael Victor á 71. mín. en renndi sér glannalega og rak takkana í sköflung hægra fótar Victors. Rauða spjaldið fór á loftið, sumum gestanna þótti það skondin ákvörðun en brotið var sannarlega ekkert gamanmál.

Myndir af brotinu: Ármann Hinrik
_ _ _

ÞÓR NÆR FORYSTU
Rafael Victor, sem skoraði loks í sigri á Gróttu í síðustu viku eftir að hafa ekki komið boltanum í netið síðan snemma í maí, er allur annar eftir að hann komst á bragðið. Hann gerði annað mark sitt í leiknum í gær á 77. mín. og náði þar með forystunni. Fékk sendingu inn í vítateig og lét vaða, boltinn fór í mótherja og breytti um stefnu þannig að Aron Dagur Birnuson átti enga möguleika á að verja.


_ _ _

ANNAR REKINN ÚTAF!
Rauða spjaldið fór aftur á loft á 84. mín. Birkir Heimisson átti laglega sendingu á Ingimar Kristjánsson sem tók á sprett og var að sleppa inn fyrir vörn gestanna þegar Nuno Malheiro felldi hann. Dómarinn fór aftur í rassvasann til að sækja rauða spjaldið enda ekkert annað í stöðunni.


_ _ _

GRINDAVÍK JAFNAR
Þegar fjórar mínútur voru eftir tókst gestunum að jafna. Markið var eins og blaut tuska í andlit Þórsara enda þeir tveimur fleiri. Eftir langa aukaspyrnu frá markverði Grindavíkur unnu gestirnir tvö skallaeinvígi, í seinna skiptið var boltinn skallaður til Dags Inga Hammer Gunnarssonar hægra megin í vítateignum og hann náði að skjóta þrátt fyrir að tveir varnarmenn væru nálægir. Aron Birkir virtist ná að verja skotið við nærstöngina en boltinn lak þó í netið.