Fara í efni
Knattspyrna

Dagur Ingi til KA en FH fær Ingimar lánaðan

Dagur Ingi Valsson, til vinstri, kemur til KA frá Keflavík en Ingimar Torbjörnsson Stöle hefur verið lánaður til FH út leiktíðina. Myndir: fótbolti.net - Hafliði Breiðbfjörð

Knattspyrnumaðurinn Dagur Ingi Valsson er genginn til liðs við KA og samdi í gær út leiktíðina 2025. Þá hefur FH fengið bakvörðinn Ingimar Torbjörnsson Stöle lánaðan frá KA út yfirstandandi keppnistímabil. Hvort tveggja kom fram á knattspyrnuvef Íslands, fotbolti.net, seint í gærkvöldi en félagaskiptaglugganum var lokað á miðnætti. 

Dagur Ingi er miðvallarleikmaður og hefur spilað með Keflavík síðustu fjögur ár þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki, að sögn fótbolta.net.

„Eftir síðasta tímabil var hann settur á sölulista þar sem hann greindi frá því í viðtali við Fótbolta.net að hann vildi taka næsta skref ferilsins og færa sig um set. Hann hélt þó kyrru fyrir hjá Keflavík og hefur spilað 15 leiki og gert 2 mörk í Lengjudeildinni á þessu tímabili. Samningur hans við Keflavík átti að renna út eftir þessa leiktíð, en hann hefur nú verið seldur til KA rétt fyrir gluggalok.“

Dagur er 24 ára gamall og skorað sex mörk í 55 leikjum í efstu deild.

Ingimar Torbjörnsson Stöle er tvítugur bakvörður sem kom til KA í fyrra frá Viking í Noregi. Hann sló í gegn á sínu fyrsta tímabili með KA og var valinn efnilegastur á lokahófi félagsins. Í byrjun ársins framlengdi hann þá við KA út 2025. Á þessu tímabili hefur hann spilað 12 leiki í Bestu deildinni með KA en aðeins byrjað í fjórum þeirra,“ segir fotbolti.net.