Bogfimi: Tveir titlar og tvö Íslandsmet

Bogfimilið Íþróttafélagsins Akurs vann Íslandsmeistaratitil félagsliða í keppni með berboga og setti jafnframt Íslandsmet um síðastliðna helgi. Metið var áður 1.404 stig, en liðsmenn Akurs skoruðu 1.469 stig. Liðsmenn Akurs voru þeir Helgi Már Hafþórsson, Izaar Arnar Þorsteinsson og Valgeir Árnason. Lið 2 frá Akri vann bronsverðlaun í sömu keppni. Helgi Már vann einnig Íslandsmeistaratitil í keppni einstaklinga, en hann var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmóti.
Jöfn og spennandi úrslitaviðureign
Lið Akurs var efst í undankeppni félagsliða og mætti liði Bogans úr Kópavogi, Íslandsmeisturunum 2024, í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Í úrslitaleiknum vinnur það lið sem fyrr nær fimm stigum. Tvö stig eru fyrir að vinna lotu, eitt stig ef það er jafnt. Akur náði forystunni í fyrstu lotu úrslitaleiksiins, vann hana 47-33, en Boginn jafnaði í 2-2 með því að vinna aðra lotuna naumlega 49-48. Akur náði aftur forystunni með 44-41 sigri í þriðju lotunni. Síðasta lotan var mjög jöfn og stefndi í að úrslitaleikurinn gæti farið í bráðabana, en til þess kom þó ekki því Akur náði að jafna í 45-45 og liðin skiptu því stigunum í fjórðu lotunni og niðurstaðan því 5-3 sigur Akurs og Íslandsmeistaratitillinn í höfn.
Lið Akurs og Bogans úr Kópavogi sem bitust um Íslandsmeistaratitil félagsliða. Akur hafði betur. Liðsmenn Akurs eru til vinsti á myndinni, Valgeir Árnason, Helgi Már Hafþórsson og Izaar Arnar Þorsteinsson. Myndin er fengin af archery.is.
Auk Íslandsmeistaratitilsins í keppni félagsliða unnu keppendur frá Akri til sex annarra verðlauna í keppni með berboga og Íslandsmetin urðu einnig tvö á endanum.
Meistari á fyrsta Íslandsmótinu sínu
Helgi Már Hafþórsson var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmóti og gerði sér lítið fyrir og vann tvo Íslandsmeistaratitla eins og áður sagði, annars vegar með liði Akurs og svo í einstaklingskeppni óháð kyni. Helgi Már var í 2. sæti eftir undankeppnina og sat því hjá í 16 manna úrslitum. Í átta liða úrslitunum mætti hann Viktoríu Kristínardóttur, sem einnig keppir fyrir Akur. Helgi Már vann þá viðureign örugglega, 6-0. Í undanúrslitunum mætti hann silfurverðlaunahafa frá síðasta Evrópumóti U21, Baldri Frey Árnasyni úr Boganum í Kópavogi. Helgi vann þá viðureign einnig 6-0, nokkuð óvænt eftir því sem fram kemur í umfjöllun á archery.is.
Þrjú efstu í keppni með berboga, óháð kyni. Guðbjörg Reynisdóttir (silfur), Helgi Már Hafþórsson Íslandsmeistari og Izaar Arnar Þorsteinsson (brons). Myndin er fengin af archery.is.
Í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn mætti Helgi Guðbjörgu Reynisdóttur úr BFHH í Hafnarfirði, en Guðbjörg hefur unnið 14 af síðustu 15 titlum í kvennaflokki og helming titlanna i keppni óháð kyni. Helgi vann fyrstu tvær loturnar, 23-21 og 23-19 og staðan orðin 4-0. Guðbjörg vann þriðju lotuna 26-19 og minnkaði muninn í 4-2. Fjórða lotan endaði í jafntefli, 24-24 og Helgi Már með 5-3 forystu fyrir síðustu lotuna. Hann vann þá lotu 24-19 og leikinn samanlagt 7-3.
Helgi Már vann svo til silfurverðlauna í karlaflokki eftir tap fyrir Sölva Óskarssyni úr Boganum í úrslitaviðureigninni. Helgi var hærri í skori í undankeppninni og var talinn sigurstranglegri í úrslitaleiknum. Báðir voru þeir Helgi Már og Sölvi að keppa um Íslandsmeistaratitil í fyrsta sinn. Helgi lenti 1-5 undir eftir þrjár lotur, vann fjórðu lotuna, en tapaði þeirri fimmtu naumlega 25-26. Izaar Arnar Þorsteinsson úr Akri vann til bronsverðlauna eftir 6-2 sigur gegn Baldri Frey Árnasyni.
Árangur keppenda og liða Akurs í keppni með berboga:
- Íslandsmeistarar – keppni félagsliða - Helgi Már Hafþórsson, Izaar Arnar Þorsteinsson og Valgeir Árnason.
- Brons – keppni félagsliða
- Íslandsmeistari – (óháð kyni) – Helgi Már Hafþórsson
- Brons – (óháð kyni) – Izaar Arnar Þorsteinsson
- Silfur – karla – Helgi Már Hafþórsson
- Brons – karla – Izaar Arnar Þorsteinsson
- Silfur – kvenna – Heike Viktoría Kristínardóttir
- Íslandsmet – Izaar Arnar Þorsteinsson – meistaraflokkur karla – 510 stig (metið var 508 stig)
- Íslandsmet – sveit Akurs – 1.469 stig (metið var 1.404 stig)
Upptöku frá Íslandsmeistaramótinu má sjá í spilaranum hér að neðan: