Fara í efni
Knattspyrna

Boðið upp á markaveislu sem endaði ekki vel

Sandra María Jessen skorar gegn Breiðabliki í Boganum í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Lið Þórs/KA missteig sig í dag þegar það mætti Breiðabliki í undanúrslitum Lengjubikarkeppni kvenna í knattspyrnu í Boganum. Blikarnir komu norður, sáu og sigruðu 6:3 og leika því til úrslit við annað hvort Val eða Stjörnuna um næstu helgi.

Sandra María Jessen skoraði tvívegis fyrir Þór/KA í fyrri hálfleik en Barbara Sól Gísladóttir skoraði fyrir gestina á milli marka Söndru. Staðan því 2:1 þegar gengið var til búningsherbergja en veður skipuðust skjótt í lofti eftir hlé. Blikarnir voru komnir yfir þegar aðeins 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, fyrst skoraði Agla María Albertsdóttir og síðan Vigdís Lilja Kristjánsdóttir.

Gestirnir tóku völdin að mestu leyti og bættu þremur mörkum við – Anna Nurmi, Birta Georsdóttir og Líf Joostdótitr van Bemmel komu þeim í 6:2 – áður en Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir klóraði í bakkann í lokin með marki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna