Fara í efni
Knattspyrna

Bikarleikir KA og Vals allir ævintýri líkastir

KA og Valur eigast við í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu á Greifavelli KA kl. 18.00 eins og Akureyri.net minnti á fyrr í dag. Í ljósi sögunnar má búast við dramatík því hingað til hafa liðin ekki mátt mætast í bikarleik öðruvísi en viðureignin verði að nokkurs konar ævintýri.

Félögin hafa mæst fjórum sinnum í bikarkeppninni gegnum tíðina, þar af einu sinni í undanúrslitum. Allir leikirnir hafa verið sögulegir.

Eftirminnilegastur allra þessara viðureigna er úrslitaleikurinn á Laugardalsvelli 23. ágúst 1992 – einhver ótrúlegasti úrslitaleikur keppninnar frá upphafi. Engum sem fylgdist með leiknum líður hann líklega úr minni. Fyrsti bikarleikur félaganna, á Valsvellinum að Hlíðarenda sumarið 1984, er líka mörgum minnistæður.

Vert er að rifja leikina fjóra upp í tilefni dagsins.
_ _ _

1984  – KA vann í vítaspyrnukeppni – Birkir meiddist illa – Þorvaldur varði tvö víti

  • KA og Valur mættust fyrst í bikarkeppninni fimmtudaginn 5. júlí árið 1984 á gamla Valsvellinum að Hlíðarenda. 5. júlí 1984. Dramatíkin var sannarlega mikil ...
  • Fyrir það fyrsta meiddist Birkir Kristinsson, aðalmarkvörður KA, mjög illa snemma leiks; ökklabrotnaði og sleið liðbönd í ökklanum. Fóturinn leit ekki vel út eins og sjá má. Friðþjófur Helgason á Morgunblaðinu var eini ljósmyndarinn á þessum leik og tók myndirnar á meðfylgjandi úrklippum.
  • Sá sem þetta skrifar var á vellinum og man glöggt viðbrögð Gríms Sæmundsen, læknis og fyrirliða Vals, núverandi forstjóra Bláa lónsins. Grímur var vinstri bakvörður og því langt frá atvikinu en gerði sér strax grein fyrir því að ekki var allt með felldu, gott ef hann taldi sig ekki heyra brothljóð, og tók á rás eftir endilöngum vellinum til að huga að Birki.
  • Vestmannaeyingurinn Birkir lék aðeins með KA þetta eina sumar og leikina má reyndar telja á fingrum annarrar handar vegna meiðslanna. Hann kom til KA frá Einherja á Vopnafirði en lék síðan með ÍA, Fram, nokkrum liðum erlendis og ÍBV. Birkir stóð 72 sinnum í marki íslenska landsliðsins á árunum 1988 til 2004 og er einn traustasti markmaður sem Ísland hefur eignast.

Þorvaldur Jónsson markvörður og tvær mynda Friðþjófs Helgasonar úr Morgunblaðinu. Annars vegar af fæti Birkis Kristinssonar, hins vegar af Grími Sæmundsen, lækni og fyrirliða Vals og fleirum, hlúa að Birki áður en sjúkrabíll kom á staðinn.

  • Eftir hefðbundnar 90 mínútur var staðan 2:2 – Siglfirðingurinn Ásbjörn Björnsson kom KA í 1:0 á 13. mín. og breytti stöðunni í 2:0 á annarri mín. seinni hálfleiks en Valur Valsson og Bergþór Magnússon skoruðu síðan fyrir Val.
  • Í framlengingunni skoraði annar Siglfirðingur fyrir KA; Hafþór Kolbeinsson breytti stöðunni í 3:2 eftir sendingu Njáls Eiðssonar en á lokamínútu framlengingar jafnaði Þorgrímur Þráinsson metin.
  • Því var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Bjarni Jónsson, Þorvaldur Örlygsson, núverandi formaður KSÍ, og áðurnefndur Ásbjörn Björnsson skoruðu fyrir KA en hetja liðsins reyndist markvörðurinn Þorvaldur Jónsson, sem leyst hafði Birki af hólmi þegar hann meiddist.
  • Þorvaldur, sem lést langt fyrir aldur fram, var fjölfhæfur í þróttamaður og frækinn. Hann var einnig markvörður í handbolta, varð Íslandsmeistari í skíðastökki og norrænni tvíkeppni og loks Ólafsfjarðarmeistari í golfi.
  • Fljótlega eftir að Þorvaldur kom í markið í stað Birkis varði hann þrisvar frábærlega og gerði sér svo lítið fyrir og varð tvær spyrnur í vítaspyrnukeppninni, frá Guðmundi Þorbjörnssyni og Þorgrími Þráinssyni. Það var Ormarr Örlygsson sem skoraði úr síðasta vítinu og kom KA endanlega í átta liða úrslit.

_ _ _

Úrslitaleikurinn 1992 – Valur jafnaði 7 sekúndum fyrir leikslok og vann í framlengingu

Úrklippur úr Morgunblaðinu eftir bikarúrslitaleikinn fræga 1992. Á myndinni til hægri gerir Anthony Karl Gregary jöfnunarmarkið með hjólhestaspyrnu þegar 7 sekúndur voru eftir af uppbótartíma.

  • KA hefur ekki orðið bikarmeistari þrátt fyrir að leika fjórum sinnum til úrslita en aldrei hefur munað jafn litlu og sunnudaginn 23. ágúst árið 1992. Sjö sekúndur voru eftir af uppbótartíma þegar Anthony Karl Gregory jafnaði með hjólhestaspyrnu af stuttu færi þannig að framlengja þurfti leikinn.
  • KA hafði 2:0 forystu í hálfleik. Gunnar Már Másson, sem áður lék með Val, skoraði á 30. mínútu og Ormarr Örlygsson bætti við marki aðeins fjórum mín. síðar.
  • Baldur Bragason skoraði fyrir Val á 64. mín. og það var svo þegar aðeins sjö sekúndur voru eftir af uppbótartíma skv. klukku Braga Bergmann dómara, að Valur jafnaði. Þar var á ferð Anthony Karl Gregory, sem varð Íslandsmeistari með KA 1989 og lék einnig með liðinu 1988. 
  • Boltinn var sendur inn í vítateig KA þar sem Jón Grétar Jónsson – sem einnig varð Íslandsmeistari með KA 1989 – framlengdi hann til Anthonys Karls sem reyndi þriðju hjólhestaspyrnuna í leiknum, og loks tókst honum ætlunarverkið.
  • Jöfnunarmarkið var KA-mönnum mikið áfall og ekki að undra. Þeir voru miður sín í framlenginunni og þá gerðu Valsmenn þrjú mörk; Anthony Karl bætti við tveimur og Einar Páll Tómasson gerði eitt mark.
  • Þess má geta að Árni Þór Freysteinsson var í liði KA þennan dag. Sonur hans, Ívar Örn, leikur með KA í dag.

_ _ _

Sigurmark Vals í blálok framlengingar 

  • KA og Valur mættust þriðja sinni í bikarkeppninni sumarið 2009, þá í 16-liða úrslitum, aftur á heimavelli Vals að Hlíðarenda en þá á blettinum sem nú kallast N1 völlurinn en var þá kenndur við símafélagið Vodafone.
  • KA lék í næst efstu deild þetta sumar og var taplaust þegar bikarleikurinn fór fram 6. júlí. 
  • Dávid Disztl gerði fyrra mark KA, jafnaði 1:1 seint í fyrri hálfleik en síðara markið gerði Andri Fannar Stefánsson, jafnaði 2:2 á 61. mín. Þannig stóðu leikar eftir 90 mín. og því var framlengt.
  • Allt stefndi í vítaspyrnukeppni en þegar um þrjár mínútur voru eftir af 30 mín. framlengingu tryggði Sigurbjörn Hreiðarsson Valsmönnum sigur með góðu skoti frá vítateig. Morgunblaðið hafði eftir Sigurbirni að hann hefði verið farinn að hugsa um vítaspyrnukeppnina, eins og sjá má á fyrirsögninni að ofan.
  • Andri Fannar Stefánsson, sem gerði seinna mark KA í leiknum, lék með KA til 2010 og síðan með Val frá 2011 til 2018 þegar hann snéri heim á ný. Andri Fannar er enn í leikmannahópi KA og hefur komið við sögu í tveimur af þremur bikarleikjum í sumar.

_ _ _

Valur áfram eftir vítaspyrnukeppni

Elfar Árni Aðalsteinsson skorar örugglega úr fyrstu spyrnu í vítaspyrnukeppninni. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

  • Fjórði og síðasti bikarleikur KA og Vals fór fram á Akureyrarvelli 29. júlí 2015. Þetta var í undanúrslitum, enn og aftur var mjótt á munum, og í annað sinn þurfti að knýja fram úrslit með vítaspyrnukeppni. KA lék á þessum tíma í næst efstu deild en fór upp í þá efstu ári síðar.
  • Elfar Árni Aðalsteinsson, sem enn er í herbúðum KA, kom liðinu í 1:0 strax á 6. mínútu leiksins þegar hann skoraði örugglega úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar brotið var á honum.
  • Valsarinn Orri Sigurður Ómarsson jafnaði fyrir á 23. mínútu.
  • Elfar Árni steig fyrstur KA-manna fram í vítaspyrnukeppninni og skoraði örugglega. Ólafur Aron Pétursson og Davíð Rúnar Bjarnason skoruðu einnig fyrir KA úr vítum.
  • Valsmennirnir Kristinn Freyr Sigurðsson, Patrick Pedersen, Einar Karl Ingvarsson, Mathias Schlie og Emil Atlason skoruðu einnig.
  • Úrslitum réði að Ingvar Kale, markvörður Vals, varði eina spyrnu – frá Josip Serdarusic, sem var nýkominn til KA og lék aðeins þetta eina sumar með félaginu.