Fara í efni
Knattspyrna

Bikarinn á Brekkuna!

55 ára bið á enda! Ásgeir Sigurgeirsson hampar bikarnum í dag eftir að Skúli Gunnar Ágústsson afhenti honum gripinn; Skúli Gunnar, heiðursgestur KA á leiknum í dag, varð bikarmeistari með liði Íþróttabandalags Akureyrar árið 1969. Það var eini bikartitill Akureyringar þar til í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Í bikarúrslitaleikjum getur allt gerst – það hefur margoft sannast. Í dag mættust KA og Víkingur í bikarúrslitaleik karla annað árið í röð. Víkingar voru reyndar að mæta í þennan leik fimmta árið í röð og hafa unnið titilinn síðustu fjögur árin. KA hefur aldrei náð að fagna sigri í fjórum tilraunum í bikarúrslitum og í gerðu í dag sína fimmtu atlögu að titlinum. Velgengni Víkinga í deild og bikar síðustu árin gerði þá auðvitað að sigurstranglegra liðinu – en í úrslitaleikjum getur hins vegar allt gerst! KA vann verðskuldaðan 2:0 sigur í dag og bikarinn í karlaflokki er loksins á leiðinni norður til Akureyrar eftir 55 ára bið – síðan ÍBA varð bikarmeistari í desember 1969!

Byrjunarlið KA í dag. Aftari röð frá vinstri: Darko Bulatovic, Hans Viktor Guðmundsson, Viðar Örn Kjartansson, Rodrigo Gomes, Steinþór Már Auðunsson og Ívar Örn Árnason. Fremri röð frá vinstri: Bjarni Aðalsteinsson, Jakob Snær Árnason, Hrannar Björn Steingrímsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Daníel Hafsteinsson.

Líklega hefur leikur KA gegn ÍA í deildinni um daginn verið nokkurs konar generalprufa fyrir úrslitaleikinn. Lið KA var eins skipað í dag og í þeim leik og í þessum tveimur leikjum hefur liðið leikið aðeins öðruvísi kerfi en oftast í sumar og líklega hefur ætlunin verið að loka á hættulegustu sendingarleiðir Víkinga. Hernaðaráætlun KA gekk fullkomlega upp og Víkingar voru langt frá sínu besta. Fyrirfram var búist við því að þeir yrðu meira með boltann, KA myndi verjast og beita skyndisóknum, og fyrsta korterið virtist leikurinn ætla að þróast þannig.

Viðar Örn Kjartansson skýtur að marki Víkings snemma í leiknum en skotið fór rétt framhjá.

Færin voru þó KA-manna. Viðar Örn Kjartansson fékk tvö góð færi á þessum upphafsmínútum og það seinna var algjört dauðafæri. Ívar Örn Árnason bombaði knettinum þá langt fram völlinn og Víkingar voru of uppteknir við að biðja um víti til að fylgjast með því hvert hann fór og Viðar var skyndilega einn á auðum sjó á vallarhelmingi Víkinga. Hann lék upp að vítateig og framhjá Ingvari markverði en náði ekki nægilega góðu skoti og Oliver Ekroth varnarmaður gestanna var þá mættur og náði að komast fyrir skotið.

Hafi einhver búist við því að Víkingar myndu enn herða tökin þá þróaðist leikurinn alls ekki þannig. KA var mun meira með boltann en „spekingarnir“ höfðu gert ráð fyrir og Víkingar náðu ekki að stjórna leiknum eftir sínu höfði. Varnarvinna KA-liðsins í dag var óaðfinnanleg og Víkingar náðu sáralítið að skapa.

FYRRA MARK KA

Fyrra mark leiksins kom á 37. mínútu þegar Ívar Örn Árnason kom knettinum inn í markteig eftir hornspyrnu og þrátt fyrir endurteknar hægspilanir í sjónvarpi þá sést illa hvort Rodri, Víkingurinn Ekroth eða Viðar Örn Kjartansson poti í boltann á leið hans inn í markið. Ívar gerði a.m.k. tilkall til marksins í viðtali við RÚV í leikhléi og það sama gerði Viðar Örn í leikslok. Líklega er enginn búinn spyrja þá Rodri og Ekroth! Boltinn endaði að minnsta kosti í markinu, þó að hann hafi reyndar haft viðkomu í hönd Ívars áður en hann kom honum inn í markteiginn. Líklega var um leikbrot að ræða þar – svona ef ströngustu túlkun knattspyrnulaganna hefði verið fylgt!

Eina þokkalega góða færi Víkings í hálfleiknum kom á 43. mínútu þegar Valdimar Þór Ingimundarson átti gott skot frá vítateigslínu sem hafnaði í stönginni.

Boltinn smellur í stöng KA-marksins eftir skot Valdimars Þórs Ingimundarsonar frá vítateigslínu seint í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik gerðu „spekingarnir“ ráð fyrir að KA myndi liggja aftarlega á vellinum og reyna að verja forskotið. Og Víkingar myndu stjórna leiknum. En – í bikarúrslitaleikjum getur allt gerst! KA hélt áfram að spila sinn árangursríka leik og Víkingar voru ekki sjálfum sér líkir. Jöfnunarmark hefði hreinlega verið ósanngjarnt. Víkingar komust næst því að skora á 94. mínútu þegar Helgi Guðjónsson elti sendingu inn fyrir vörnina og reyndi að vippa boltanum yfir Steinþór í markinu. Stubbur sýndi stórbrotna markvörslu og bjargaði glæsilega.

Þegar það voru að nálgast 99 mínútur á vallarklukkunni gerði KA endanlega út um leikinn. Steinþór spyrnti þá langt út frá marki sínu, Ásgeir Sigurgeirsson elti boltann og náði að trufla Ingvar í markinu þannig að boltinn hrökk af honum og út í teiginn. Þar lúrði Dagur Ingi Valsson, nýkominn inn á sem varamaður, og hann renndi knettinum í netið. KA-menn ærðust af fögnuði, jafnt inni á vellinum sem í stúkunni og bættu enn í fögnuðinn þegar flautað var til leiksloka örskömmu síðar. Langþráður bikarmeistaratitill á Brekkuna – óvæntur sigur að mati „sparkspekinga“. En – í bikarúrslitaleik getur allt gerst!

KA-menn trylltust af gleði eins og gefur að skilja þegar Dagur Ingi Valsson gerði annað markið og gulltryggði sigurinn skömmu fyrir leikslok.

Og þó að sigur KA hafi ef til vill þótt óvæntur þá var hann fullkomlega sanngjarn. KA var betra liðið í dag, varðist afar skipulega og baráttugleðin skein af öllum í liðinu. Mest mæddi á öftustu línunni og miðverðirnir Ívar, Hans og Darko stigu ekki feilspor. Steinþór var öruggur í markinu og þurfti að taka á honum stóra sínum í tvígang í lokin. En þetta var stjörnuframmistaða hjá öllum.

Eflaust hefur gamla KA-manninum Þorvaldi Örlygssyni, núverandi formanni KSÍ, ekki leiðst að sjá „sína menn“ landa titlinum – fyrsta stóra titlinum síðan 1989, þegar KA varð Íslandsmeistari. Og þá var Þorvaldur einmitt leikmaður KA. Og það kom síðan í hlut heiðursgests KA á leiknum – Skúla Gunnars Ágústssonar – að afhenda Ásgeiri Sigurgeirssyni fyrirliða KA bikarinn eftirsótta.

Fjölmargir stuðningsmenn KA voru í áhorfendastúkunum í dag og létu svo sannarlega vel í sér heyra. Sá hluti þeirra sem kom að norðan er væntanlega á leiðinni heim þegar þetta er ritað og ætla eflaust að mæta beint í bikarmeistarafögnuðinn sem hefst kl. 22:30 í KA-heimilinu. Þar verður eflaust fagnað vel og innilega fram á nótt – og mögulega lengur!

Það verður einnig að teljast líklegra en hitt að Hallgrímur þjálfari fresti æfingunni sem er á dagskrá klukkan ellefu í fyrramálið!