Fara í efni
Knattspyrna

Aron „læstist í hálsinum“ rétt fyrir leik

Aron Einar á heimsmeistaramótinu í Rússlandi 2018. Hann verður á ferðinni með landsliðinu á ný í lok næsta mánaðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, var í byrjunarliði Al Arabi að vanda, þegar það var tilkynnt fyrir stórleikinn gegn Al Sadd í katörsku deildinni í gær. Þegar til kom sat hann sem fastast á bekk varamanna allan tímann.

„Ég læstist i hálsinum rétt fyrir leik, reyndi að hita upp en það gekk ekki upp,“ sagði landsliðsfyrirliðinn við Akureyri.net þegar forvitnast var um ástæðu þessa. Ekkert alvarlegt er þó á ferðinni, hann á að verða klár í slaginn strax í næsta leik, og verður á sínum stað þegar landsliðið fer á ferðina í næsta mánuði og mætir Þjóðverjum og Armenum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Al Sadd hefur um skeið verið lang besta liðið í Katar, undir stjórn spænska meistarans Xavi. Al Arabi var með vænlega þegar skammt var eftir af leiknum í gær; staðan var 2:1 þegar Al Sadd jafnaði rétt fyrir leikslok og liðið skoraði aftur þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma og sigraði 3:2. Afar svekkjandi úrslit fyrir Aron og félaga.