Fara í efni
Knattspyrna

Arna Sif Ásgrímsdóttir íþróttamaður Vals

Arna Sif Ásgrímsdóttir, íþróttamaður Vals árið 2023. Mynd af heimasíðu Vals.

Akureyringurinn Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrrum leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA, var útnefnd íþróttamaður Vals árið 2023. Þetta var tilkynnt í hófi að Hlíðarenda á gamlársdag. Greint er frá kjörinu á heimasíðu Vals. Arna Sif varð Íslandsmeistari með Val í þriðja sinn á árinu, ásamt því að vera valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af sérfræðingum Bestu markanna á Stöð 2 og hjá Heimavellinum. Þá var hún á meðal efstu kvenna í kjöri leikmanna á besta leikmanni deildarinnar. 

Arna Sif er ekki óvön því að hljóta útnefningu sem þessa því hún hefur fimm sinnum verið valin íþróttakona Þórs, 2012, 2014, 2018, 2019 og 2021 og jafnframt íþróttamaður Akureyrar 2012 þegar hún sem fyrirliði leiddi Þór/KA að fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins.

Arna Sif var ekki viðstödd hátíðarhöldin á gamlársdag þegar tilkynnt var um kjörið. Hún var stödd á Akureyri hjá fjölskyldunni yfir hátíðirnar. Hún var hins vegar í fjarfundarsambandi við Hlíðarenda og sýnd þar á stórum skjá þegar liðsfélagi hennar, Málfríður Anna Eiríksdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd. Á heimasíðu Vals er vitnað í Örnu Sif og viðbrögð hennar við kjörinu þar sem hún segir: „Ég er gríðarlega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Það er mikill heiður að vera valin íþróttamaður ársins hjá félagi sem er í hæsta gæðaflokki í öllum greinum. Fyrst og fremst vil ég þakka fyrir mig og um leið þakka liðsfélögunum mínum og öllum Völsurum fyrir frábært ár - Við höldum áfram, áfram hærra!“


Arna Sif á stórum skjá í bakgrunni, í beinni frá Akureyri, þegar tilkynnt var um kjör hennar sem íþróttamaður Vals. Liðsfélagi hennar, Málfríður Anna Eiríksdóttir, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd úr hendi Harðar Gunnarssonar, formanns Vals. Mynd: Valur.is.

Valsarar standa þannig að kjöri íþróttamanns félagsins að sjö manna dómnefnd kemur saman og metur frammistöðu þeirra leikmanna sem skarað hafa fram úr á árinu. Horft er til nokkurra þátta við valið og kosið innan nefndarinnar hver skuli hljóta þetta sæmdarheiti. Í nefndinni sitja formenn deilda félagsins, sitjandi formaður félagsins, tveir formenn þar á undan og Halldór Einarsson, en kjörið fór fyrst fram 1992 þegar Halldór gaf verðlaunabikar.