Fara í efni
Knattspyrna

Ævarr Freyr Birgisson er blakmaður ársins

Myndir af vef Blaksambands Íslands

Ævarr Freyr Birgisson og Sara Ósk Stefánsdóttir hafa verið valin blakkona og blakmaður ársins 2024. Greint er frá þessu á vef Blaksamands Íslands (BLÍ).

Ævarr Freyr er uppalinn í KA en hefur undanfarin ár verið á mála hjá liði Odense Volleyball í dönsku deildinni – VolleyLigaen. Yfirstandandi leiktíð er hans sjöunda í Óðinsvéum og hafa Ævarr og félagar orðið bæði Danmerkurmeistarar og bikarmeistarar síðustu tvö ár. Ævarr á að baki hátt í 200 leiki í deildinni sem gerir hann einn af reyndustu leikmönnum liðsins. Hann hefur leikið í stöðu kantsmassara síðustu tímabil en spreytir sig í stöðu frelsingja þetta tímabil, að því er segir á vef BLÍ. Liðið Odense Volleyball er í öðru sæti dönsku deildarinnar í augnablikinu.

Ævarr Freyr, sem hlýtur nú nafnbótina blakmaður ársins í fjórða skipti, hefur leikið 48 sinnum fyrir landslið Íslands. „Þó að Ævarr sé sjaldnast hávaxnasti leikmaðurinn á vellinum þá er það tæknileg frammistaða og taktískt innsæi sem gerir hann að lykilleikmanni íslenska landsliðsins,“  segir á vef Blaksambandsins. Þar segir að frammistaða hans í móttöku, leikfærni, svo og leiðtogahæfileikar á vellinum, hafi gert gæfumuninn síðustu ár þegar landsliðið hefur verið á mikilli uppleið. „Ævarr er mikil fyrirmynd liðsfélaga sinna, er skuldbundinn liðinu og viljugur í að miðla reynslu sinni áfram.“

Sara Ósk Stefánsdóttir er uppalin í HK en er að spila sitt þriðja tímabil með Holte í Kaupmannahöfn og fjórða tímabilið sitt í Danmörku. Nánar hér um hana.