Fara í efni
Kjarnaskógur

Nicolai frábær í markinu og KA vann Fjölni

Nicolai Horntvedt Kristensen og Einar Birgir Stefánsson gera að gamni sínu í leiknum í kvöld; Nicolai var frábær í markinu og Einar Birgir öflugur í vörninni eins og svo oft áður. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu afar mikilvægan sigur á Fjölni í kvöld á heimavelli í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. KA var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11, og munurinn var sá sami þegar leiktíminn rann út; lokatölur 27:23.

Leikurinn var jafn framan af, gestirnir tveimur mörkum yfir þegar 10 mín. voru búnar en KA jafnaði fljótlega og lauk fyrri hálfleik með góðum kafla. KA gerði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og komst því sex mörkum yfir – 17:11, hafði býsna örugga forystu drjúga stund en KA-strákarnir náðu þó ekki að hrista gestina almennilega af sér. Munurinn var kominn niður í þrjú mörk þegar tæpar 10 mín. voru eftir en varð aftur sex mörk þegar skammt var eftir og munurinn fjögur mörk í lokin sem fyrr segir. Öruggur sigur þegar upp var staðið.

Þegar deildin er hálfnuð er ÍR neðst með 5 stig, Fjölnir þar fyrir ofan með 6 og KA og HK eru þar fyrir ofan með 7 stig, tveimur stigum á eftir Gróttu sem er í áttunda sæti, því síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni í vor. 

Einar Rafn Eiðsson er nýlega farinn að leika með KA á ný eftir meiðsli. Hann gerði sex mörk í kvöld, þar af þrjú af vítalínunni. Hér kemur hann KA sex mörkum yfir, 25:19, þegar fimm mínútur voru eftir.

Mörk KA: Ott Varik 7, Einar Rafn Eiðsson 6 (3), Dagur Árni Heimisson 4, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 4, Daði Jónsson 2, Patrekur Stefánsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1. 

Varin skot: Nicolai Honrtvedt Kristensen 20 (48,8%), Bruno Bernat 1 víti (50%)

Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 7 (4 víti), Viktor Berg Grétarsson 3, Óðinn Freyr Heiðmarsson 3, Alex Máni Oddnýjarson 2, Gísli Rúnar Jóhannsson 2, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 2, Gunnar Steinn Jónsson 2, Brynjar Óli Kristjánsson 1, Haraldur Björn Hjörleifsson 1.

Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 15 (37,5%).

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Dæmigerð mynd fyrir leikinn; vonsvikinn Fjölnismaður eftir að Nicolai Horntvedt Kristensen varði frá honum. Það gerði hann 20 sinnum í kvöld.