Fara í efni
Kjarnaskógur

Metfjölgun í GA og metfjöldi spilaðra hringja

Erlendir kylfingar spiluðu 340 hringi á Jaðarsvelli í sumar, sem er það þriðja mesta frá því að talningar hófust. Á Arctic Open í ár léku 49 útlendingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Meðlimum í Golfklúbbi Akureyrar fjölgaði töluvert í sumar, um 89 nýir félagsmenn skráðu sig í klúbbinn og hafa aldrei verið fleiri nýskráningar en í ár. Þessi fjölgun gerði það einnig að verkum að met var sett í spiluðum hringjum á vellinum.

Frá því er sagt á vef GA að félagar í klúbbnum hafi spilað 21.230 hringi á tímabilinu frá 21. maí fram til 30. september, sem er fjölgun frá metárinu í fyrra þegar spilaður var 21.091 hringur á nokkuð lengra tímabili, eða frá 11. maí til 25. október. Ef miðað er við sama tímabil í fyrra og á þessu ári, frá 21. maí til 30. september voru hringirnir 19.093 í fyrra og því hartnær tvö þúsund fleiri á sama tímabili á þessu ári, sem er yfir 10% fjölgun.

Að frátöldum golfmótum spiluðu félagar í GA 6.066 hringi í júlímánuði. Að mótshringjum meðtöldum spiluðu GA-félagar samtals 23.539 hringi í sumar. Að meðaltali spiluðu klúbbfélagar rúmlega 159 hringi á dag, samanborið við 125 hringi í fyrra, 120 árið 2022, 111 árið 2021 og 108 árið 2020. 

Mótshringjum fjölgaði

Mótshringjum sem spilaðir voru á Jaðarsvelli voru ögn fleiri nú en í fyrra, alls 4.160 í ár, en voru 3.962 í fyrra. Þetta er aðeins í þriðja skiptið síðan talningar hófust árið 2014 sem mótshringir eru fleiri en 4.000 á einu ári. 

Þá hafa erlendir kylfingar heimsótt Jaðarsvöll og voru til dæmis 49 sem tóku þátt í Arctic Open í ár. Erlendir kylfingar spiluðu 340 hringi á Jaðarsvelli í sumar, sem er það þriðja mesta frá því að talningar hófust. Hringirnir voru 341 árið 2016 og 444 í fyrra.

Nánar er sagt frá þessari tölfræði og spilamennsku á Jaðarsvelli í frétt á vef Golfklúbbsins. Súluritin hér að neðan eru einnig af vef GA og sýna fjölda spilaðra hringja af klúbbfélögum, fjölda mótshringja og fjölda hringja sem erlendir kylfingar spiluðu.