Fara í efni
Kjarnaskógur

Hótel verður reist við Skógarböðin

Allt klappað og klárt! Við borðið sitja Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga og Finnur Aðalbjörnsson. Aftari röð frá vinstri: Alfa Dröfn Jóhannssdóttir, Sigurður Hólm Sæmundsson, Óli Þór Jónssson, Sigríður María Hammer, Þorsteinn Hjaltason, Rebekka Garðarsdóttir og Una Þórey Sigurðardóttir. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Eigendur Skógarbaðanna við rætur Vaðlaheiðar og stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga hafa komist að samkomulagi sem heimilar byggingu hótels í grennd við Skógarböðin. Samningur þar að lútandi var undirritaður þar í morgun. Í bígerð er að byggja 120 herbergja hótel steinsnar frá böðunum.

Skógræktarfélagið hefur haft umráðarétt yfir Vaðlaskógi síðan 1936 og stundað þar trjárækt í áratugi. Stjórn félagsins gat lengi vel ekki fellt sig við hugmyndir um hótelið eins og þær voru settar fram en hefur nú afsalað sér umráðarétti yfir þeim hluta landsins þar sem framkvæmt verður, með ýmsum skilyrðum.

Svæðið er í landi tveggja jarða. Eigendur Skógarbaðanna, hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, eiga Ytri-Varðgjá, og neðsta hluta Syðri-Varðgjár, svæðið þar sem umræddur skógur er og framkvæmdir munu eiga sér stað.

Sigriður Hrefna Pálsdóttir formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga og Finnur Aðalbjörnsson eigandi Skógarbaðanna handsala samninginn í morgun.

Hart deilt en allir glaðir

Hart hefur verið deilt um málið en allir eru glaðir að lausn fannst. „Við hjá Skógræktarfélaginu fögnum nýjum tækifærum, nýjum perlum í Vaðlaskógi og hlökkum til að starfa með nýjum nágrönnum,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri félagsins við Akureyri.net. „Við Finnur voru stundum eins og tvær górillur að berjast um banana, en ég er mjög glaður að við sýndum þann þroska að ná samningi.“

Finnur Aðalbjörnsson var einnig glaður í bragði. „Ég er afskaplega feginn að málið er í höfn. Allir skildu sáttir og við erum mjög spennt fyrir góðri samvinnu við Skógræktarfélagið í framtíðinni. Við viljum gera svæðið í heild að mjög fallegri útivistarparadís.“

Ingólfur sagði hug sinn „ekki síður hjá þeim sem á undan gengu af mikilli fórnfýsi, fólkinu við Eyjafjörð sem hóf útplöntun í Vaðlaskógi löngu fyrir seinni heimsstyrjöldina. Fyrir tæpum 90 árum gerðu þau sér grein fyrir að sennilega myndu aðrir njóta ávaxtanna af starfi þeirra líkt og Árni Jóhannsson fyrrum formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga tæpir á í 10 ára afmælisriti SE árið 1940.“

Þar sagði Árni að einn góðviðrisdagur í skógi væri „meira virði andlega og líkamlega, en að það verði metið til fjár, að minnsta kosti fyrir þá, sem á mölinni búa, eða hafa mikla innivist og kyrrsetur.“

Bætti svo við: „Ráðið til að bæta úr þessu, að vísu ekki nema að litlu leyti fyrir okkur, sem nú lifum, er að græða upp nýjan skóg, nær okkur, eða flytja Vaglaskóg inn yfir heiðina. Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur nú hafið slíkan flutning og nýgræðslu.”

Sigríður Hrefna Pálsdóttir formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga færði þeim hjónum, Finni Aðalbjörnssyni og Sigríður Maríu Hammer, fallegan korkfjallaþin í morgun í tilefni tímamótanna. Trénu verður fundinn góður staður þegar frost fer úr jörðu, að sögn Finns.

Heitt í kolunum! Í tilefni dagsins var poppað við opinn eld og kaffi lagað á hlóðum, rótsterkt og gott.