Fara í efni
Kjarnaskógur

Baráttusigur á Val í æsispennandi leik

Emma Karólína Snæbjarnardóttir kemst af miklu harðfylgi í gott færi í kvöld. Hún tók tíu fráköst í leiknum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfuknattleik vann fimm stiga baráttusigur á Val, 79-74, í 10. umferð Bónusdeildarinnar í kvöld og heldur sig áfram í humátt á eftir toppliðunum.

Leikmannahópurinn sem Daníel Andri tefldi fram kom nokkuð á óvart miðað við það sem verið hefur í undanförnum leikjum, en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Fyrir leikinn var óvíst um þáttöku Evu Wium Elíasdóttur í leiknum vegna veikinda og María Sól Helgadóttir, sem spilaði sínar fyrstu mínútur í meistaraflokki í bikarsigrinum á ÍR á laugardaginn, var ekki leikfær heldur vegna höfuðhöggs í þeim leik.

Það er hins vegar gott að eiga varaforða þegar á reynir og þrjár „gamlar“ skyttur voru aftur komnar á leikskýrslu. Heiða Hlín Björnsdóttir, sem breytti um hlutverk í haust og gerðist aðstoðarþjálfari Daníels, Hrefna Ottósdóttir, sem ákvað fyrr í haust að hætta, og Karen Lind Helgadóttir, sem flutti suður vegna náms í haust, voru allar komnar í Þórsbúninginn og reiðubúnar að leggja sitt af mörkum. 

Þrátt fyrir veikindin skoraði Eva 15 stig í kvöld og tók fjögur fráköst, en hún þurfti nokkrum sinnum að koma út af til þess hreinlega að jafna sig. 

Amandine Toi var stigahæsti Þórsarinn í kvöld með 26 stig.

Æsispennandi allan leikinn

Gestirnir af Hlíðarenda byrjuðu betur á meðan Þórsstelpunum gekk illa að hitta fyrstu mínúturnar. Valur hélt forystu lengst af fyrsta leikhluta eða alveg þar til í lokin þegar Þór komst yfir, munurinn eitt stig, en dómarar þurftu þó að fara í skjáinn til að fullvissa sig um að síðasta karfa Þórs hafi komið of seint, munaði sekúndubroti að munurinn yrði þrjú stig í stað eins. Aftur byrjuðu gestirnir betur í öðrum leikhluta, en þá kom góður kafli hjá Þórsliðinu sem jók forystuna í sex stig fyrir leikhlé.

Góður kafli Þórsliðsins í 3. leikhluta skilaði 11 stiga forskoti, en það hvarf næstum alveg þegar leið á leikhlutann, tveggja stiga forysta Þórs fyrir lokafjórðunginn. Valur jafnaði svo í 53-53 með fyrstu körfu fjórða leikhluta, en því var svarað með góðum kafla hjá Þórsliðinu sem náði mest 11 stiga forskoti. Þórsliðið náði aftur sex stiga forystu, en Valur komst yfir í örskotsstund, 64-65, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Aftur náði Þór sex stiga forskoti, en Valur svaraði og minnstu munaði að gestunum tækist að stela leiknum. Baráttan skilaði þó fimm stiga sigri þegar upp var staðið. 

Eva Wium lék með í kvöld þrátt fyrir að hún væri veik Hún gerði margt laglegt, skoraði 15 stig og tók fjögur fráköst, en þurfti nokkrum sinnum að koma út af til þess hreinlega að jafna sig. 

Á lokamínútunum var ekki bara spurt um sigur heldur einnig hvernig fyrri leikurinn fór, en hann vann Valur 82-77. Fimm stiga sigur Þórs í kvöld dugar því ekki til að eiga betri árangur í innbyrðis viðureignunum, en við því er bara eitt ráð, vera ofar en hitt liðið þegar talið er upp úr kössunum.

Maddie með þrennu

Það þarf varla að koma á óvart lengur, en Maddie Sutton náði þrennu í kvöld, þ.e. yfir tíu í þremur tölfræðiþáttum. Hún skoraði 11 stig, tók 16 fráköst og átti 11 stoðsendingar. Þá vakti frammistaða Emmu Karólínu athygli, en vel framan af leiknum var hún á undan Maddie í fráköstunum, tók til dæmis fimm fráköst í fyrsta leikhluta og tíu fráköst alls. Raunar stóð allt liðið vel fyrir sínu og innkoma Heiðu, Hrefnu og Karenar setti skemmtilegan svip á leikinn og stemninguna þótt ekki hafi þær komist á skortöfluna.

  • Gangur leiksins: Þór - Valur (15-14) (18-13) 33-27 (20-24) (26-23) 79-74
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 26 - 5 - 2
  • Ester Fokke 16 - 5 - 0
  • Eva Wium Elíasdóttir 15 - 4 - 0
  • Maddie Sutton 11 - 16 - 11
  • Natalia Lalic 8 - 4 - 1
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 3 - 10 - 2
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 0 - 1 - 0

Þrátt fyrir sigur í kvöld er Þór áfram í 4. sæti deildarinnar, en liðið hefur nú unnið sex leiki og tapað fjórum. Fyrir ofan er Keflavík með sex sigra, en á leik á morgun gegn Stjörnunni, Haukar eru með sjö sigra og mæta Hamri/Þór á morgun, en Njarðvík tyllti sér á toppinn í kvöld, hefur unnið sjö leiki og tapað þremur.