Bjóða „skyndiskírn“ í Glerárkirkju

Á sumardaginn fyrsta verður boðið upp á svokallaða „drop-in skírn“ eða skyndiskírn í Glerárkirkju. Þá geta allir þeir sem eru óskírðir komið í kirkjuna og látið skíra sig.
„Þetta er liður í því að búa til minna vesen því oft er það það sem fólk á svo erfitt með þegar það ætlar að gifta sig eða skíra. Það þarf að gera svo margt og það kostar svo mikið. Við erum að reyna að minnka þetta,“ segir Hildur Björk Hörpudóttir, prestur í Glerárkirkju. Skírnin verður í anda raðhjónavígslanna sem boðið var upp á í kirkjunni á Valentínusardag. Sá viðburður tókst mjög vel og hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn á næsta ári.
Dásamleg skírnarathöfn
Hvað varðar skírnina á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 24. apríl, þá þurfa áhugasamir að láta prestana í Glerárkirkju vita með smá fyrirvara enda verða gerðar skírnartertur með nafni hvers barns. Dagurinn er ekki bara fyrir hvítvoðunga heldur geta t.d. systkini sem aldrei hafa verið skírð komið öll í einu. „Við ætlum að vera með dásamlega skírnarathöfn með kórnum okkar og þá verða allir þeir sem vilja bornir hér til skírnar og svo fær fólkið skírnarköku með sér heim,“ segir Hildur Björk.
Prestarnir sem raðgiftu í Glerárkirkju um daginn. Frá vinstri, Sindri Geir Óskarsson, Hildur Björk Hörpudóttir, Hildur Eir Bolladóttir og Aðalsteinn Þorvaldsson. Mynd: Þorgeir Baldursson.