Fara í efni
KA/Þór

Þór vann Stjörnuna og fór upp í 4. sætið

Maddie Sutton, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke og Eva Wium Elíasdóttir. Myndin er úr leik gegn Val fyrr í haust. Mynd: karfan.is.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik vann sinn fyrsta útisigur í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildinni, þegar Þórsstelpur sóttu Störnuna heim í Garðabænum. Leikurinn var hnífjafn nánast allan tímann, en gott áhlaup Þórskvenna í fjórða leikhluta skilaði forystu sem þær létu ekki af hendi.

Stjarnan hafði frumkvæðið í fyrsta leikhlutanum en Þórsliðið náði góðu áhlaupi, skoraði níu stig í röð og leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þórsliðið hélt forystunni nær allan annan leikhlutann og hafði eins stig forystu í leikhléi. Liðin hittu ágætlega eins og sést á stigaskorinu í fyrri hálfleiknum. 

Þriðji leikhluti var lengst af hnífjafn, en heimakonur í Stjörnunni með þriggja stiga forskot að honum loknum, 73-70. Þórsstelpurnar áttu svo gott áhlaup í fjórða leikhluta á sama tíma og Stjarnan lenti í villuvandræðum, ein út af með fimm villur og tvær með fjórar. Þórsliðið hélt forystunni, vann fjórða leikhlutann með níu stiga mun og niðurstaðan sex stiga sigur, fyrsti útisigur liðsins í deildinni í vetur.

Esther Fokke skoraði 30 stig og Maddie Sutton náði þrefaldri tvennu, eins og það er kallað í körfuboltanum, en hún skoraði 13 stig, tók 13 fráköst og átti 12 stoðsendingar. Þrefalda tvennan reyndar komin í hús nokkru áður en leiknum lauk. Maddie var með flest framlagsstig í Þórsliðinu, 30. Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði mest Stjörnukvenna, 28 stig.  

  • Gangur leiksins: Stjarnan - Þór (21-23) (30-29) 51-52 (22-18) (15-24) 88-94
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 30 - 8 - 2
  • Amandine Toi 22 - 4 - 3
  • Natalia Lalic 17 - 2 - 0
  • Maddie Sutton 13 - 13 - 12 30 framlagsstig
  • Eva Wium Elíasdóttir 7 - 2 - 4
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 5 - 3 - 2

Með sigrinum í kvöld fór Þórsliðið upp í 4. sætið, er með fjóra sigra og fjögur töp. Tindastóll er í sömu stöðu, einnig með fjóra sigra eftir útisigur gegn Hamri/Þór í kvöld. Grindvíkingar mæta Aþenu á morgun og eiga einnig möguleika á að ná sínum fjórða sigri.