Fara í efni
KA/Þór

„Sjally Pally“ fylltist á 4 mínútum – 100 á biðlista

Matthías Örn Friðriksson kastar í úrslitaleik Sjally Pally í fyrra, Dilyan Kolev bíður átekta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Opnað var fyrir rafræna skráningu keppenda á Akureyri Open mótið í pílukasti klukkan 12 á hádegi í dag og mótið var orðið fullt fjórum mínútum síðar. Þá voru 160 skráðir til leiks og áður en hálftími var liðinn höfðu 100 bæst við. Sá hópur er því á biðlista en á fundi mótsstjórnar í dag verður rætt hvort fjölga megi keppendum með einhverjum ráðum.

Mótið, sem fer fram 4. og 5. apríl, er það fjölmennasta hér á landi. Í hittifyrra, þegar keppt var í húsnæði píludeildar Þórs í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu, tóku 70 þátt í mótinu en áhuginn var svo mikill í fyrra að það var fært í Sjallann. Þá voru keppendur 160 og færri komust að en vildu.

„Kallarinn“ úr Ally Pally í Sjallanum

Eftir að mótið var fært í fyrra tóku Þórsarar upp á því að kalla það Sjally Pally, með vísan í Ally Pally, samkomuhúsið Alexander Palace í London þar sem heimsmeistaramótið fer fram árlega um jólaleytið. Áhugi á pílukasti hefur aukist gríðarlega hérlendis síðustu misseri og margir fylgjast grannt með sjónvarpsútsendingum frá HM. Dómarinn og „kallarinn“ Russ Bray verið áberandi í Ally Pally; sá sem tilkynnir áberandi, rámri röddu hve mörg stig keppandi fær þegar pílunum er kastað, verður í því hlutverki á úrslitakvöldinu í Sjallanum! Skemmtilegt framtak það hjá Þórsurum!

Sjally Pally á Facebook