Fara í efni
KA/Þór

Íslandsmeistarar fjórða árið í röð

Lið KA er Íslandsmeistari kvenna í blaki eftir 3-1 sigur á Völsungi í þriðja leik liðanna í einvíginu um titilinn. Fyrirliðarnir Amelía Ýr Sigurðardóttir og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir lyfta bikurunum. Mynd: Ármann Hinrik.

Kvennalið KA í blaki varð í kvöld Íslandsmeistari og fullkomnaði fernuna með 3-1 sigri á Völsungi í þriðju viðureign liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. KA er því handhafi allra bikaranna sem keppt er um í kvennaflokki; meistarar meistaranna, bikarmeistarar, deildarmeistarar og Íslandsmeistarar. Ekki nóg með það heldur er þetta fjórða árið í röð sem þær landa Íslandsmeistaratitlinum, auk þess að hafa orðið bikarmeistarar þrisvar á síðustu fjórum tímabilum.

Húsvíkingar voru að sjálfsögðu mættir að styðja sínar konur. Mynd: Ármann Hinrik.

Fyrir leikinn í kvöld höfðu liðin mæst tvisvar og KA unnið báða leikina 3-0. Sigurgangan hélt áfram og KA vann fyrstu hrinuna í leik kvöldsins, hafði forystu frá upphafi til enda, mest tíu stig, en lokatölur 25-21.

Húsvíkingar svöruðu þá og unnu sína fyrstu hrinu í einvíginu 25-18 og jöfnuðu í 1-1. Önnur hrinan var nokkuð jöfn framan af, en þegar staðan var 16-18 skoraði Völsungur fimm stig í röð og náði að fylgja þeim kafla eftir og vinna hrinuna. Það dugði þó skammt því KA svaraði með sigri í þriðju hrinunni, eftir að Völsungur hafði reyndar haft frumkvæðið til að byrja með. Jafnt var 12-12, en þá tók KA forystuna og náði að láta kné fylgja kviði.


Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir og Diljá Mist Jensdóttir með allar klær úti í hávörninni. Mynd: Ármann Hinrik.

Snemma í fjórðu hrinunni fór KA að síga hægt og bítandi fram úr og kláraði hrinuna með níu stiga mun. Sigur í einvíginu þar með í höfn, 3-0, og þriðji Íslandsmeistaratitillinn í röð hjá kvennaliði KA.

KA - Völsungur 3-1 (25-2118-25 25-17 25-14)

Eins og áður sagði hefur kvennalið KA nú unnið fjórfalt þrjú tímabil í röð, en um þessar mundir eru aðeins sex ár frá því að liðið vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og nú eru þeir orðnir fimm; 2019, 2022, 2023, 2024 og 2025.

Við leyfum myndunum að lýsa stemningunni.

Íslandsmeistarar, deildarmeistarar, bikarmeistarar og meistarar meistaranna. Aftari röð frá vinstri: Diljá Mist Jensdóttir, Lilja Rut Kristjánsdóttir, Þórhildur Lilja Einarsdóttir (14), Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir (2), Lilja Kristín Ágústsdóttir (8), Lucia Martin Carrasco (19), Paula Del Olmo Gomez og Mateo Castrillo, þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Amelía Ýr Sigurðardóttir fyrirliði (11), Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir fyrirliði (10), Auður Pétursdóttir (16), Anika Snædís Gautadóttir (15), Kara Margrét Árnadóttir (1), Sveinbjörg Lilja Ingólfsdóttir (4), Arnrún Eik Guðmundsdóttir (17), Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir (9) og Julia Bonet Carreras (7). Myndir: Ármann Hinrik.

Julia Bonet Carreras var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Mynd: Ármann Hinrik.

Amelía Ýr Sigurðardóttir fyrirliði með þann stóra, Íslandsbikarinn. Í baksýn má sjá foreldra og systur Amelíu, þau Huldu Elmu Eysteinsdóttur, Sonju Björgu Sigurðardóttur og Sigurð Grétar Guðmundsson. Mynd: Ármann Hinrik.

Blakhjón, barn og bikarasafn. Paula Del Olmo Gomez, Ariel dóttir þeirra og Mateo Castrillo þjálfari með heljarmikið bikarasafn sem þau hjón hafa unnið með KA-liðinu. Mynd: Ármann Hinrik.