Fara í efni
KA/Þór

Hittnir Hamarsmenn höfðu betur gegn Þór

Reynir Bjarkan Róbertsson, Andrius Globys og Tim Dalger í leik gegn Skallagrími fyrri í haust. Reynir og Dalger skoruðu mest Þórsara í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar máttu þola tap í 9. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir fengu Hamar frá Hveragerði í heimsókn. Munurinn var að lokum 18 stig.

Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn og Þórsarar með yfirhöndina lengst af, en gestirnir fóru að síga fram úr í 2. hleikhluta og leiddu með 14 stigum eftir fyrri hálfleikinn. Þeir héldu áfram að bæta í forystuna, voru komnir með 20 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn og hleyptu Þórsurum aldrei of nálægt sér. Í nokkur skipti kom kippur í leik Þórsara sem minnkuðu muninn aðeins, en þá komu svör frá gestunum þegar þeir þurftu á því að halda. 

Á löngum köflum í leiknum voru Þórsurum mislagðar hendur á sama tíma og gestirnir úr Hveragerði virtust geta hitt úr hvernig færi og hvaða tegund af skoti sem er. Þeirra dagur og þeirra sigur. Þórsarar réðu illa við tvo af erlendu leikmönnum Hamars, Bandaríkjamanninn Jaeden Edmund King og Spánverjann Jose Medina, en samanlagt skoruðu þeir 57 af 102 stigum Hamars.

Þórsarar voru reyndar ofan á í frákastabaráttunni, tóku 47 fráköst á móti 36, en töpuðu boltanum 20 sinnum á móti sjö skiptum gestanna. Tim Dalger var atkvæðamestur Þórsara með 24 stig og tók 15 fráköst, en Reynir Bjarkan Róbertsson kom næstur með 22 stig. Baldur Örn Jóhannesson tók tíu fráköst. Jose Medina skoraði mest Hamarsmanna, 30 stig og Jaeden King 27. 

Helsta tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar

  • Tim Dalger 24 - 15 - 1 - 24 framlagsstig.
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 22 - 6 - 1
  • Baldur Örn Jóhannesson 11 - 10 - 4
  • Orri Már Svavarsson 8 - 0 - 2
  • Andri Már Jóhannesson 7 - 3 - 1
  • Andrius Globys 3 - 5 - 2 
  • Veigar Örn Svavarsson 3 - 3 -  1 
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 3 - 0 - 0
  • Smári Jónsson 2 - 0 - 3
  • Fannar Ingi Kristínarson 1 - 0 - 0

Þórsarar eru áfram í 7. sæti þrátt fyrir tapið, en þeir hafa unnið þrjá leiki og tapað sex. Skallagrímur, Snæfell og Fjölnir eru einnig með þrá sigra.