Fara í efni
KA/Þór

Birna María til UFA og Egill verður áfram

Hlauparinn Birna María Másdóttir er gengin til liðs við UFA.

Hlauparinn Birna María Másdóttir er gengin til liðs við Ungmennafélag Akureyrar. Þá er ljóst að Egill Örn Gunnarsson, sem bættist í hópinn fyrir síðasta sumar, verður áfram í herbúðum félagsins.

Bibba, eins og Birna María er gjarnan nefnd, „hefur skotist hratt upp á hlaupahimininn eftir mjög áhugavert hlaupasumar þar sem hún náði eftirtektarverðum árangri,“ segir í tilkynningu frá UFA.

Þrátt fyrir að hlaupaferillinn sé ekki langur barðist Birna María um efstu sætin bæði í Laugavegshlaupinu, þar sem hún endaði í níunda sæti, og 29 km hlaupinu í Súlur Vertical á Akureyri þar sem hún varð í öðru sæti. Þá varð hún í fimmta sæti í Mýrdalshlaupinu.

Egill Örn Gunnarsson sem hefur stimplað sig inn sem einn helsti hlaupari landsins

„Bibba, sem er þekkt fyrir að vera kraftmikill hlaupari, hefur verið að prufa sig áfram í styttri vegalengdum en hún var nálægt pallinum þegar hún endaði í fjórða sæti í 5 km Hleðsluhlaupinu í ágúst síðastliðnum á tímanum 18:53,“ segir í tilkynningu frá UFA.

Hún er búsett í Reykjavík og æfir undir handleiðslu Tobba og Evu hjá Fjallahlaupaþjálfun, hjónanna Þorbergs Inga Jónssonar og Evu Birgisdóttur, og segist spennt að spreyta sig í styttri hlaupum – hyggst prufa að keppa í millivegalengdarhlaupum fyrir UFA.

Egill Örn Gunnarsson varð í fimmta sæti í Laugaveginum í sumar og sigraði í 19m km hlaupi í Súlur Vertical. Þá varð hann þriðji í 42 km hlaupi í Istria í Króatíu á árinu. „Egill, sem er Akureyringur búsettur í höfuðborginni og æfir einnig undir handleiðslu þeirra Tobba og Evu hjá Fjallahlaupaþjálfun, segir að brautarhlaupin séu mjög spennandi og skemmtileg, sérstaklega yfir vetrartímann,“ segir í tilkynningunni frá UFA. Hann hefur stimplað sig inn sem einn helsti hlaupari landsins, segir þar. „Hans markmið á brautinni eru millivegalengdarhlaup sem og lengri brautarhlaup og halda áfram að keppast um efstu sætin í búningi UFA.“