Fara í efni
KA/Þór

Auðvelt hjá KA/Þór í Hafnarfirðinum

Leikmenn KA/Þórs fagna sigri á heimavelli fyrr í vetur. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór vann lið Hauka-2 í Grill 66 deild kvenna í handknattleik í dag með 41 marki gegn 20 og heldur fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.

Það þarf líklega ekki að fara mörgum orðum um leik þar sem annað liðið skorar tvö mörk gegn hverju einu marki andstæðingsins, en rétt að hafa í huga að hér var um að ræða lið Hauka-2 gegn meistaraflokksliði KA/Þórs, sem að vísu hefur einnig á að skipa mörgum ungum leikmönnum. KA/Þór stefnir hraðbyri beint aftur upp í efstu deild, Olísdeildina. Liðið hefur unnið níu leiki af tíu og aðeins gert eitt jafntefli.

Bergrós Ásta Guðmundsdóttir og Tinna Valgerður Gísladóttir skoruðu sjö mörk hvor fyrir KA/Þór. Matea Loncac varði 12 skot og Sif Hallgrímsdóttir sjö. Hjá Haukum-2 var það Ester Amíra Ægisdóttir sem skoraði mest, sjö mörk.

KA/Þór

Mörk: Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 7, Tinna Valgerður Gísladóttir 7, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 5, Kristín A. Jóhannsdóttir 5, Susanne Pettersen 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 4, Elsa Björg Guðmundsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3, Aþena Einarsdóttir 2.
Varin skot: Matea Lonac 12, Sif Hallgrímsdóttir 7 (48,7%).
Refsimínútur: 2.

KA/Þór er á toppi Grill 66 deildarinnar með 19 stig eftir tíu leiki, fjórum stigum meira en HK. Afturelding kemur þar næst með 13 stig, en á leik til góða.