Fara í efni
KA/Þór

Afleitur handboltadagur Akureyrarliðanna

Darija Zecevic markvörður Stjörnunnar reyndist leikmönnum KA/Þórs erfið í dag. Hér er Isabella Fraga í dauðafæri eftir hraðaupphlaup en hún vippaði í þverslá. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Óhætt er að segja að þetta hafi verið slæmur dagur hjá handboltaliðum bæjarins. Karlalið KA tapaði heima fyrir ÍBV, kvennalið KA/Þórs tapaði fyrir Stjörnunni, einnig á heimavelli, og Þórsarar töpuðu fyrir Herði á Ísafirði.
_ _ _

Meistararnir of sterkir

Sigur Íslands­meist­ar­a ÍBV á KA í Olís deild karla var býsna öruggur. Baráttan var jöfn fram í miðjan fyrri hálfleik þegar staðan var 7:7 en ÍBV gerði þá fjögur mörk í röð og staðan var 17:13 í hálfleik. KA-menn náðu að minnka muninn niður í eitt mark snemma í seinni hálfleik en síðan juku meistararnir muninn hægt og rólega, þeir náðu mest átta marka forystu en í lokin munaði sex mörkum; leikurinn endaði 37:31.

Mörk KA: Ott Varik 8, Einar Rafn Eiðsson 5 (3 víti), Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Magnús Dagur Jónatansson 3, Jens Bragi Bergþórsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Ólafur Gústafsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 13, 29,5%.

ÍBV er í fjórða sæti deild­ar­inn­ar með 22 stig en KA er í níunda sæti með 10 stig. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Grótta er í áttunda sætinu með 11 stig, KA er með 10 sem fyrr segir, HK 9 og Víkingur og Selfoss eru bæði með 6 stig.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Staðan í Olís deild karla

Enn syrtir í álinn

KA/Þór tapaði með tveggja mun fyrir Stjörnunni, 27:25. Ekki var nóg með að KA/Þór tapaði í dag heldur vann Afturelding lið ÍBV mjög óvænt á sama tíma í Eyjum. Stjarnan er nú komin með 9 stig, Afturelding 8 en KA/Þór er enn neðst með 5 stig. Vert er að geta þess að Stelpurnar okkar eiga einn leik til góða og eiga eftir að fá Aftureldingu í heimsókn. Vonin um að halda sæti í deildinni er því enn fyrir hendi en hefur dofnað mjög.

Stjarnan var mun betra liðið í fyrri hálfleik og með sex marka forystu að honum loknum, 14:8. Það var ekki síst að þakka magnaðri frammistöðu markvarðar Stjörnunnar, Darija Zecevic. Hún varði alls 18 skot í leiknum, sem var 43% markvarsla.

Munurinn hélst töluverður lengi vel en með góðum endaspretti náði KA/Þór að minnka hann en komst aldrei nær en tvö mörk, í lokin.

Mörk KA/Þórs: Isabella Fraga 5 (3 víti), Nathalia Soares Baliana 5, Telma Lísa Elmarsdóttir 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 1, Agnes Vala Tryggvadóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 8, 25,8% – Sif Hallgrímsdóttir, 2, 40%.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Staðan í Olís kvenna

Þór niður í 4. sæti

Þórsarar töpuðu 29:24 fyrir Herði á Ísafirði í næst efstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni.

Fyrri hálfleikur var jafn en heimamenn einu marki yfir, 14:13, þegar honum leik. Jafnræði var áfram með liðunum fram í miðjan seinni hálfleik en þá sigldu Harðarmenn hægt en örugglega fram úr gestunum. 

Segja má að aðal munurinn á liðunum hafi verið frammistaða Jonas Maier í marki Harðar. Hann var frábær, varði 50% skota sem hann fékk á sig, alls 24.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 7, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 2 og Sveinn Aron Sveinsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 8.

Þór datt niður í fjórða sæti deildarinnar og er þriðja þeirra liða sem geta farið upp. Ungmennalið Fram er í efsta sæti en færist ekki á milli deilda. Fjölnir er með 19 stig, ÍR og Þór með 18 en ÍR á einn leik til góða.

Smellið hér til að sjá tölfræðina.

Staðan í Grill 66 deild karla