Fara í efni
KA/Þór

„Æðislegt að enda þetta svona“ – MYNDIR

Sveinn Margeir Hauksson fagnar sigurmarkinu gegn Víkingi um helgina. Að baki honum eru Jakob Snær Árnason og Ásgeir Sigurgeirsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sveinn Margeir Hauksson, knattspyrnumaður í KA, er floginn vestur um haf og leikur því ekki meira með liðinu í sumar. Hann hefur senn nám við þann þekkta háskóla UCLA, University of Southern California Los Angeles, og stefnir að því að útskrifast með mastersgráðu í fjármálaverkfræði eftir 15 mánuði.

Hann kvaddi eftirminnilega um helgina þegar KA-menn sigruðu Íslands- og bikarmeistara Víkings 1:0 á heimavelli, þar sem Sveinn Margeir gerði eina markið þegar lítið var eftir af leiknum.

„Það var æðislegt að enda þetta svona,“ sagði þessi marksækni Dalvíkingur við Akureyri.net í gær um sigurmarkið. Hann fékk boltann hægra megin á vellinum, rétt fyrir framan miðju, tók á rás og komst óáreittur alla leið inn í vítateig þar sem hann skoraði með laglegu skoti í nærhornið. 

„Það var í raun enginn sem kom í mig fyrr en ég var kominn inn í teig. Já, það kom mér mjög á óvart hve auðvelt það var að komast alla leið; maður býst alls ekki við því á móti þessu liði,“ sagði hann.

Hvork Halldór Smári Sigurðsson né Pablo Punyed höfðu roð við Sveini Margeiri á sprettinum og hann fór síðan svo auðveldlega framhjá þriðja gamla brýninu, Jóni Guðna Fjólusyni sem beið hans við vítateiginn, að engu líkara var en varnarmaðurinn væri hreinlega ekki á staðnum.

„Bæði varnarmaðurinn sem kom í mig og markmaðurinn veðjuðu svo á að verja sama markhornið þannig að sú ákvörðun að skjóta í nærhornið kom ósjálfrátt. Þetta gerðist frekar hratt.“