Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Fjórði sigur Þórsara í röð – áfram í 5. sæti

Tim Dalger skoraði mest Þórsara í sigrinum á KV, 33 stig. Myndin er úr leik Þórs og Sindra í haust. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar ríghalda í 5. sætið í 1. deild karla í körfuknattleik. Þeir unnu KV á útivelli í gærkvöld í nokkuð jöfnum og spennandi leik og hafa nú unnið fjóra leiki í röð og samtals tíu leiki af 18.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleiknum, örlítið frumkvæði Þórsara í fyrsta leikhluta, en KV í öðrum, tveggja stiga forysta Þórs íeftir fyrri hálfleikinn. Þórsarar náðu svo ágætis forskoti í seinni hálfleiknum, tíu stigum í þriðja leikhluta og munurinn mestur 14 stig Þór í vil í þeim fjórða. KV náði að saxa á það forskot, en ekki nægilega mikið til að ná Þórsurum alveg og munurinn á endanum átta stig.

Tim Dalger var atkvæðamestur í liði Þórs eins og oft áður, skoraði 33 stig og tók 13 fráköst, var með 37 framlagsstig. Reynir Bjarkan Róbertsson skoraði 19 stig. Hjá KV var það Friðrik Anton Jónsson sem var mest áberandi, en hann skoraði 27 stig. Eyjólfur Ásberg Halldórsson skoraði 21 stig.

  • KV - Þór (27-26) (22-25) 49-51 (17-22) (23-24) 89-97
    Tölfræði leiksins
    Staðan í deildinni

  • Tim Dalger 33 - 13 - 2 - 37 framlagsstig
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 19 - 8 - 4
  • Andrius Globys 13 - 11 - 4
  • Smári Jónsson 11 - 2 - 5
  • Veigar Örn Svavarsson 8 - 4 - 2
  • Orri Már Svavarsson 5 - 5 - 5
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 3 - 1 - 0
  • Andri Már Jóhannesson 5 - 0 - 2

Þórsarar eru áfram í 5. sætinu eins og áður sagði, hafa unnið tíu leiki. Fjölnir er með jafn marga sigra í 6. sætinu, en Breiðablik er í 7. sæti með átta sigra. Fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni og verður að teljast líklegt að Þór og Fjölnir mætist í fyrstu umferð umspilsins, 5. og 6. sætið, og mikilvæg barátta fram undan þeirra á milli um 5. sætið og oddaleiksréttinn í þeirri viðureign, ef af verður. Kálið er þó ekki sopið því Þórsarar eiga meðal annars eftir að spila á útivelli við tvö af efstu liðunum, en einnig heima gegn liðunum í næstu sætum, Fjölni og Breiðabliki.

Leikirnir sem Þór á eftir: Breiðablik (h), Hamar (ú), Fjölnir (h), Ármann (ú).