Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Ekkert bikarævintýri KA-manna í vetur

Dagur Árni Heimisson lék afar vel í seinni hálfleik í kvöld og var markahæstur KA-manna með átta mörk. Hér hefur hann hleypt af og Mosfellingarnar Birgir Steinn Jónsson, til vinstri, og Árni Bragi Eyjólfsson, fyrrverandi leikmaður KA, horfa skelkaður á eftir boltanum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA mætti Aftureldingu í fjörugum og spennandi leik í KA-heimilinu í kvöld í 8 liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik. Eftir talsverða dramatík í jöfnum leik skoruðu gestirnir síðasta markið alveg í blálokin og fóru með 28:26 sigur af hólmi. Afturelding verður því eitt fjögurra liða í bikarúrslitahelginni en KA-menn eru komnir í frí fram í febrúar.

Leikurinn var í járnum lengst af, KA var með yfirhöndina til að byrja með en gestirnir voru aldrei langt undan, sigu framúr undir lok fyrri hálfleiks og voru 13:12 yfir í hléi.

Bruno Bernat stóð í marki KA í seinni hálfleik og varði sjö skot; tvisvar var boltanum var þrumað í höfuð hans en hér ver Bruno snilldarlega frá Stefáni Magna Hjartarsyni sem var í dauðfæri eftir hraðaupphlaup.

Það bar annars til tíðinda skömmu fyrir lok hálfleiksins að tímatökubúnaðurinn stóð eitthvað á sér og gera varð stutt hlé á leiknum vegna þessa. Gárungarnir sögðu að þarna hefði tímavörðurinn Magnús Sigurður Sigurólason verið að véla um, því hann fagnaði sextugsafmæli sínu í dag og vildi eflaust bara að tíminn stæði kyrr svo hann gæti notið dagsins aðeins lengur! En eins og allir sem til þekkja vita þá er Maggi Siguróla einn gegnheilasti KA-maður sem til hefur verið og lét eitthvert merkisafmæli ekki aftra sér frá því að sinna sjálfboðaliðastörfum fyrir félagið sitt.

Í seinni hálfleik var Afturelding oftast skrefi á undan en með mikilli baráttu og vilja héldu KA-strákarnir sér inni í leiknum allan tímann og náðu m.a. að vinna upp fjögurra marka forskot sem Afturelding náði í upphafi hálfleiksins. En gestirnir hleyptu KA aldrei framúr og héldu haus í blálokin eftir að Logi Gautason minnkaði muninn í eitt mark þegar 20 sekúndur voru eftir. Síðasta markið var þeirra og bikardraumur KA þar með úti.

Logi Gautason skorar laglega úr vinstra horninu þegar 20 sekúndur voru eftir. Minnkaði muninn í eitt mark og KA-menn eygðu von en  Afturelding brunaði fram og Blær Hinriksson gerði síðasta mark leiksins eftir gegnumbrot – á myndinni til hægri.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, lengst til vinstri, lék ekki í kvöld vegna meiðsla og sat á áhorfendabekkjunum. Hans var sárt saknað. 

Þessi lið mættust líka í 8 liða úrslitunum í fyrra og þá hafði Afturelding betur í æsispennandi leik eftir framlengingu. Síðastliðinn laugardag áttust liðin við í KA-heimilinu í deildinni og þar náði Afturelding jafntefli á ótrúlegan hátt í lokin. Í þeim leik fór KA-maðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson á kostum og skoraði 12 mörk. Hans naut ekki við í kvöld vegna meiðsla og það var sannarlega skarð fyrir skildi í liði KA. Dagur Árni Heimisson átti stórleik í seinni hálfleik í kvöld og var markahæstur í liði KA með 8 mörk. Einar Rafn Eiðsson var með 7 og markverðirnir vörðu samtals 12 skot. Í liði gestanna gerði Birgir Steinn Jónsson fyrstu 4 mörk liðsins og endaði markahæstur með 8 mörk.

AFMÆLISBARNIÐ

  • Magnús Sigurður Sigurólason, sem verið hefur tímavörður á handboltaleikjum í KA-heimilinu til fjölda ára, fagnaði sextugsafmæli í dag eins og fram kom að ofan. Hann stóð vaktina með sóma sem endranær; til vinstri er hann einbeittur á svip við hlið Jóhanns Gunnars Jóhannssonar eftirlitsmanns meðan á leiknum stóð og til hægri er Magnús komin í forláta KA keppnistreyju sem honum var færð að gjöf að leikslokum í tilefni dagsins, árituð af leikmönnum og þjálfurum.

Öll tölfræði leiksins