Fara í efni
Kaldbakur

Öruggt hjá Þórsurum sem eru áfram efstir

Hafþór Vignisson, Oddur Gretarsson og Brynjar Hólm Grétarsson hafa allir leikið vel með Þór í haust. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu áttunda leikinn í röð í Grill 66-deild karla í handbolta í gær þegar þeir sóttu Val 2 heim að Hlíðarenda; lokatölur urðu 37:29 eftir að Þór var sjö mörkum yfir í hálfleik, 19:12.

Þórsliðið er því áfram í efsta sæti deildarinnar og verður að minnsta kosti þar til í lok janúar, því ekki verður leikið næst fyrr en eftir HM.

„Þórsarar voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Þeir skoruðu átta af fyrstu 10 mörkum leiksins og héldu eftir það í horfinu allt til leiksloka,“ segir í umfjöllun um leikinn á handbolta.is. „Oddur Gretarsson lék við hvern sinn fingur í leiknum, skoraði 13 mörk í 13 skotum fyrir Þórsliðið. Lék hann unga leikmenn Vals grátt.“

Oddur var lang markahæstur, Hafþór Már Vignisson gerði 6 og þeir Aron Hólm Kristjánsson, Arnór Þorri Þorsteinsson og Þórður Tandri Ágústsson 4 hver.

„Það hefur verið góður stígandi í liðinu sem ég er mjög sáttur með. Ekkert er þó ennþá í hendi. Við erum ennþá í baráttunni og tökum bara einn leik fyrir í einu,“ segir Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs við handbolta.is eftir leikinn.

Þórsarar fengu nokkra leikmenn til félagsins í sumar þar á meðal uppalda Þórsara. Má þar m.a. nefna Hafþór Má Vignisson, Þórð Tandra Ágústsson og Odd Gretarsson en sá síðastnefndi sneri heim eftir áratug í atvinnumennsku í Þýskalandi. „Halldór Örn þjálfari finnur greinilega til ábyrgðar sinnar við að koma liðinu saman og búa það sem best undir að vinna deildina. Hann segist ekkert freista þess að horfa til næsta tímabils,“ segir Ívar Benediktsson, ritstjóri handbolta.is, í gær. 

„Við fengum leikmenn til okkar í sumar og erum ennþá að spila okkur saman. Ef við förum upp þá þurfum við að bæta við okkur. Við erum hinsvegar ekki komnir upp og fyrr en það gerist getum við ekki farið að huga að næsta vetri,“ segir Halldór Örn.

Leikskýrslan

Umfjöllun handbolta.isÁttundi sigur Þórsara og Ekkert er ennþá í hendi