Fara í efni
KA

Vonir um úrbætur hjá Skútabergi

Athafnasvæði Skútabergs að Moldhaugahálsi. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur samþykkt úrbótaáætlun fyrirtækisins Skútabergs vegna athafnasvæðis þess að Moldhaugahálsi í Hörgársveit, en leggur jafnframt áherslu á framkvæmdir við varanlegt og vandað geymslusvæði hefjist sem fyrst. 

Nefndin hafði á fundi sínum í september, sem Akureyri.net sagði frá, lýst vonbrigðum með að áform um tiltekt á svæðinu hefðu ekki gengið eftir og óskaði eftir skriflegri úrbótaáætlun frá fyrirtækinu fyrir 1. október þar sem fram kæmi hvenær og hvernig yrði orðið við kröfum nefndarinnar um úrbætur. 

Fjallað var um málið að nýju á fundi nefndarinnar í október og þar kemur eftirfarandi fram í fundargerð: „Í aðgerðaráætlun fyrirtækisins kemur fram að tiltekt fari fram á svæðinu í viku 41-42, þar sem ónýtir gámar og rusl verður fjarlægt. Í kjölfarið verður farið í vettvangskönnun um svæðið með heilbrigðisfulltrúa. Einnig kemur fram að unnið sé að undirbúningi sjónmanar í samráði við Vegagerðina og að búið sé að senda inn umsókn vegna geymslusvæðis sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagi.“ 


Heilbrigðisnefndin ítrekar að þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi skuli komið í viðeigandi förgun. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Heilbrigðisnefndin hefur samþykkt úrbótaáætlun fyrirtækisins og falið starfsfólki heilbrigðiseftirlitsins að fylgjast með framvindu mála. Að mati hennar þurfa framkvæmdir við varanlegt og vandað geymslusvæði að hefjast sem fyrst og „ítrekar nefndin þá skoðun sína að þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi skuli komið í viðeigandi förgun án frekari tafa enda eigi slíkir hlutir ekkert erindi inn á geymslusvæðið,“ eins og segir í fundargerðinni.