Fara í efni
KA

Vonin lifir eftir dramatískan sigur

Ásgeir Sigurgeirsson tekur stefnuna að áhorfendastúkunni, glaður í bragði, eftir að hann gerði sigurmark KA gegn Stjörnunni í dag þegar um ein mínúta var eftir að hefðbundnum leiktíma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu Stjörnuna 2:1 á heimavelli í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, og eygja því enn von um að verða á meðal sex efstu liða að loknum 22 umferðum.

Sigur var lífsnauðsynlegur í dag til að ná því markmiði og KA nældi í þrjú stig eftir dramatík og mikla baráttu í rigningunni.

Staðan var 1:1 og rúmar 10 mínútur eftir af leiknum þegar Stjarnan fékk dæmda vítaspyrnu og Sveinn Margeir Hauksson KA-maður var rekinn af velli – dómarinn sýndi honum gult spjald öðru sinni og þar með rautt. Útlitið var því ekki mjög bjart fyrir heimamenn, en skjótt skipast veður í lofti.

Emil Atlason, markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, tók vítaspyrnuna og þrumaði boltanum í þverslá og aftur fyrir.  Vonin um sigur KA var því enn raunverulega fyrir hendi. Litlu munaði að Stjarnan skoraði þegar skammt var eftir af leiknum en KA-menn björguðu á ögurstundu og það var svo þegar ein mínúta lifði af hefðbundnum 90 mínútna leiktíma að Ásgeir Sigurgeirsson tryggði KA sigur með laglegu marki.

Eftir sigurinn er KA með 25 stig og er í sjöunda sæti þegar tveir leikir eftir, þremur stigum á eftir FH og KR sem eru í fimmta og sjötta sæti.

Meira síðar

Klúðraði víti! Emil Atlason, markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, tók víti á 78. mín. en tókst ekki að skora; hann þrumaði boltanum í þverslá og þaðan fór hann aftur fyrir endamörk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Dramatík í lokin! Ásgeir Sigurgeirsson lætur vaða á mark Stjörnunnar utarleiga úr vítateignum vinstra megin. Hann smellhitti boltann sem söng í netinu neðst í fjærhorninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson