Fara í efni
KA

Vonbrigðasilfur enn og aftur – MYNDIR

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði 3:1 fyrir Víkingum í úrslitaleik bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær eins og Akureyri.net greindi frá. Enn þurftu KA-menn sem sagt að bíta í það súra epli að taka á móti silfurverðlaunum; þetta var fjórði úrslitaleikur félagsins og allir hafa þeir tapast, þótt ótrúlega litlu hafi stundum munað.

Veðrið setti strik í reikninginn í gær; rok og rigning gerðu mönnum nokkuð erfitt fyrir en hafi gæði knattspyrnunnar ekki verið eins mikil og vitað er að býr í leikmönnum liðanna var baráttan og krafturinn þeim mun meiri, hraustlega var tekist á og leikurinn því skemmtilegur á að horfa – að minnsta kosti fyrir hlutlausa.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
_ _ _

HÁTÍÐARSTUND
Úrslitaleikur bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarkeppninnar, er jafnan mikil hátíð enda gjarnan talað um viðburðinn sem stærsta leik ársins. Fyrir leik komu tveir ungir drengir, hvor úr sínu félagi, með bikarinn fallega og stilltu honum upp á hlaupabrautinni.

_ _ _

FRÁBÆR STEMNING
Stuðningsmenn KA létu vel í sér heyra í gær. Stór hópur var mættur klukkutíma fyrir leik, hóf þá söng og gleðin var við völd. Stuðningssöngvar hljómuðu linnulítið allan leikinn og lengi á eftir.

_ _ _

LOGNIÐ Á HRAÐFERÐ
Veðrið var leiðinlegt síðdegis í gær á meðan leikurinn fór fram. Borðarnir á bikarnum segja sína sögu, svo og mjólkurfernan góða sem stóð skammt frá. Hún fauk um koll í rokinu fyrir leik en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, stökk til og reisti fernuna við.

_ _ _

ÞORSTEINN MÁR HEIÐURSGESTUR
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, var heiðursgestur KA á leiknum. Á efstu myndinni heilsar hann Hallgrími Mar Steingrímssyni og þar fyrir neðan er Þorsteinn ásamt Hallgrími og Hjörvari Maronssyni formanni knattspyrnudeildar KA á meðan íslenski þjóðsöngurinn var leikinn.

_ _ _

HRAUSTLEGA TEKIST Á
Víkingar létu finna vel fyrir sér á upphafskafla leiksins og KA-menn létu ekki sitt eftir liggja. Hér brýtur Birnir Snær Ingason illa á Elfari Árna Aðalsteinssyni strax á 11. mínútu og fékk réttilega áminningu, gult spjald.

_ _ _

RÉTT SPJÖLD OG RÖNG
Helgi Mikael Jónasson dómari sýndi Birni Snæ réttilega gult spjald eins og áður sagði en á 36. mínútu urðu honum á mistök. Hallgrímur Mar Steingrímsson braut á Nikolaj Hansen í skyndisókn Víkinga og dómarinn lyfti gula spjaldinu, en sýndi það alsauklausum Dusan Brkovic, sem er númer 3.

_ _ _

VÍKINGAR TAKA FORYSTU
Matthías Vilhjálmsson, lengst til vinstri, náði forystu fyrir Víking þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 39. mínútu. Birnir Snær Ingason sendi boltann að markteignum þar sem Matthías skallaði hann laglega aftur fyrir sig og í netið. KA-menn vildu meina að brotið hefði verið á Dusan Brkovic, sem var næstur Matthíasi og hann því ekki getað gert almennilega atlögu að markaskoraranum. Ekki verður um það deilt að einn Víkinganna ýtti hressilega í Brkovic en svo virtist sem KA-maðurinn Elfar Árni hefði ýtt Víkingnum á Dusan.

_ _ _

DUSAN ÖFLUGUR
Dusan Brkovic bjargaði mjög vel í tvígang um miðjan seinni hálfleikinn með því að kasta sér fyrir skot Víkinga. Hér er annað atvikið; Nikolaj Hansen hljóp langa leið óáreittur með boltann alla leið inn í vítateig og þrumaði að marki en Dusan henti sér fyrir skotið og bjargaði horn. 

_ _ _

FRÁBÆR TÆKLING EN DÆMT BROT
Þegar um 20 mínútur komust Víkingar í 2:0, eftir vægast sagt umdeilt atvik. KA-maðurinn Rodri virtist ná boltanum af leikmanni Víkings með frábærri tæklingu við vítateigshornið þegar sá rauði og svarti var um það bil að sleppa í gegn. Aðstoðardómarinn kom þeim skilaboðum til dómarans að um brot hefði verið að ræða og Rodri fékk að auki gult spjald. KA-menn voru vægast sagt bálreiðir með ákvörðun dómarans og máttu vera það.

_ _ _

VÍKINGAR Í VÆNLEGA STÖÐU
Danijel Djuric tók aukaspyrnuna; glæsileg sending hans fór beint á Aron Elís Þrándarson í miðjum teignum og hann skoraði með viðstöðulausu skoti. Ívar Örn Árnason sem átti að gæta Arons gleymdi sér eitt augnablik og það reyndist dýrkeypt. Ekki batnaði skap KA-manna við markið og skyldi engan undra. Þeir létu aðstoðardómarann heyra það, m.a. Elfar Árni Aðalsteinsson sem var nýlega farinn af velli, og var honum sýnt gult spjald fyrir kveðjuna til þess bláklædda með flaggið.

_ _ _

GLÆSILEGT MARK ÍVARS
KA minnkaði muninn í 2:1 á 82. mínútu. Jóan Símun Edmundsson var með boltann langt úti á velli vinstra megin, sendi yfir til hægri að vítateignum þar sem Rodri og einn Víkinganna áttust við, boltinn barst lengra til hægri þar sem Ívar Örn Árnason tók hann niður og skoraði með glæsilegu skoti í fjærhornið! Von vaknaði í brjóstum KA-manna. Sumir töldu að Rodri hefði brotið á Víkingnum, þar á meðal þjálfarar beggja liða í viðtölum eftir leik, en erfitt var að dæma um það.

Ljósmyndir: Eva Björk Ægisdóttir
_ _ _

ÞRIÐJA MARK VÍKINGS
Von KA-strákanna um sigur var ekki raunveruleg nema örskamma stund. Aðeins tveimur mín. eftir mark Ívars náðu Víkingar aftur tveggja marka forystu þegar Ari Sigurpálsson gerði þriðja mark þeirra eftir skyndisókn. Erlingur Agnarsson sendi á Ara sem komst einn í gegn og skoraði framhjá Kristijan Jajalo í marki KA. Ari hafði ekki verið inni á vellinum nema í tæpa mínútu þegar hann skoraði.

_ _ _

ÖMURLEGT AÐ TAPA
Í úrslitaleik sem þessum fagnar aðeins annar hópurinn og í gær voru Víkingar í sporum þeirra glöðu. Þeir hafa nú unnið bikarkeppnina fjórum sinnum í röð. KA-menn voru vitaskuld gríðarlega vonsviknir eins og gefur að skilja.