Fara í efni
KA

„Viljum að menn brenni fyrir klúbbinn“

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, og Bruno Bernat, markvörðurinn ungi sem lék sérlega vel í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA komst í gær í undanúrslit bikarkeppninnar í handbolta, sem kennd er við Coca Cola, í fyrsta skipti í mörg herrans, ár með sigri á Haukum í KA-heimilinu.

„Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur [að komast loksins í fjögurra liða úrslitin – bikarúrslitahelgina], eitt af þeim markmiðum sem við settum okkur var einmitt að taka þátt í þessum stóru leikjum; leikurinn í kvöld var einmitt mjög stór hvað varðar spennustig, umgjörð og frábæra andstæðinga, og að koma út úr svona leik sem sigurvegari er ótrúlega sterkt,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, við Akureyri.net eftir sigurinn á Haukum í gær.

KA var án mjög sterkra leikmanna, Einars Rafn Eiðssonar sem hefur verið besti sóknarmaðurinn liðsins í vetur, og markmannsins Nicholas Satchwell.

„Eins og stundum gerist, þegar einhverjir detta út, þá stíga þeir upp sem fá stærri hlutverk en þeir eru vanir,“ segir þjálfarinn. „Við höfum verið að vinna töluvert í þeim gildum sem við viljum standa fyrir; við viljum að menn brenni fyrir klúbbinn okkar og leikmenn hafa verið ótrúlega vel gíraðir og samstilltir undanfarið. Nú höfum við náð að tengja saman nokkra leiki þar sem við höfum haft yfirhöndina hvað varðar baráttuna, núna vorum við í brjáluðum slag á móti frábæru Haukaliði og til þess að vinna svona leik þarf ótrúlega margt að ganga upp. Stemningin í húsinu var frábær og svona stundir eru í raun ástæðan fyrir því að menn eru í þessu. Það er svo gaman, að spila fyrir framan svona frábæra áhorfendur og ná að vinna. Þegar þar að kemur viljum við auðvitað fá allt þetta fólk með okkur suður!“ sagði Jónatan.

KA-menn fögnuðu að vonum innilega eftir sigurinn en þjálfarinn gleymdi sér þó ekki í gleðinni. „Nú þurfum við hins vegar að ná okkur strax niður á jörðina – það er rosalegt verkefni framundan þegar ÍBV kemur norður á miðvikudaginn.“

KA-menn komnir í bikarúrslitahelgina