Fara í efni
KA

Víkingar tryggðu sér sigur í uppbótartíma

Nökkvi Þeyr Þórisson, sem hér er í leiknum gegn Keflvíkingum á Dalvík um daginn, gerði mark KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn gengu afar vonsviknir af Víkingsvellinum í dag eftir 2:1 tap fyrir Íslands- og bikarmeisturunum. Staðan var 1:1 allt þar komið var í uppbótartóma þegar Viktor Örlygur Andrason gerði sigurmark heimaliðsins.

KA vann fimm af fyrstu sex leikjunum og gerði eitt jafntefli en liðið hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. KA-menn eru í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Víkingum, með 16 stig, en meistararnir hafa lokið einum leik meira.

Víkingar voru töluvert betri í fyrri hálfleik. Steinþór Stubbur markvörður KA varði mjög vel í þrígang, í eitt skiptið reyndar frábærlega, og hinum megin varði Ingvar Jónsson ekki síður vel þegar Ásgeir Sigurgeirsson náði að þruma á markið af stuttu færi. Ásgeir kom loks inn í liðið á ný en hann meiddist í þriðju umferð.

Seinni hálfleikurinn var mun jafnari en sá fyrri.

Það var Ari Sigurpálsson sem kom Víkingum í 1:0 á 54. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf frá vinstri.

Nökkvi Þeyr Þórisson jafnaði fyrir KA a 80. mínútu. Oleksii Bykov, sem lék í stöðu vinstri bakvarðar í dag, sendi inn á teig - einu sinni sem oftar - og Nökkvi gerði mjög vel að skora úr þröngri stöðu.

KA-menn voru grátlega nálægt því að fara með eitt stig af Víkingsvellinum en þegar Viktor Örlygur Andrason skoraði með hnitmiðuðu skoti, ekki mjög föstu, fyrir utan vítateig. Hann snéri á varnarmenn og skaut og Steinþór náði ekki að henda sér fyrir boltann.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna