Fara í efni
KA

„Við þráðum þetta meira en þeir“

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir sigurinn í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þjálfarinn Hallgrímur Jónasson er sá eini í KA-liðinu sem hefur orðið bikarmeistari áður (2006 með Keflavík) og kannski þess vegna sem hann var svona rólegur og yfirvegaður í viðtali við RÚV eftir leikinn!

„Við þráðum þetta meira en þeir,“ sagði hann þegar hann var spurður út í hvað hefði skilið liðin að í dag. Hann sagði að þeir hefðu komið vel undirbúnir í leikinn og verið andlega tilbúnir í þetta. „Þá er maður bara rólegur,“ sagði hann og bætti við: „Svo fara leikir bara eins og þeir fara. En mér fannst við verðskulda þennan titil. Þetta er æðisleg stund. Maður er bara orðlaus og meyr,“ sagði stoltur Hallgrímur þjálfari.

Bræðurnir Hallgrímur Mar og Hrannar Björn Steingrímssynir.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var verulega hrærður í leikslok þegar RÚV ræddi við hann. „Ég get eiginlega ekki lýst því,“ sagði hann þegar hann var spurður hvernig tilfinning það væri að vinna loksins titil með KA og átti bágt með að leyna tilfinningunum. „Ég er búinn að bíða í sjö ár núna að gera eitthvað með þessu liði. Það er ekki langt í að ferillinn verði búinn og mjög gott að klára þennan stóra titil. Ég er mjög stoltur af því að vera partur af þessu liði,“ sagði Hallgrímur og greinilegt að þessi sigur var mikils virði fyrir hann.

Viðar Örn Kjartansson hleypur fagnandi frá marki eftir að KA tók forystuna.

Viðar Örn Kjartansson var kampakátur í leikslok í viðtali við RÚV. „Þetta var geðveikt. Geðveikt. Ég gæti ekki verið stoltari af strákunum.“ Gengið hjá liðinu í deildinni hefur verið vonbrigði í sumar en Viðar vill samt leggja áherslu á að enda mótið vel. „Við kannski höfum ekkert að miklu að keppa en við megum ekki slaka á. Við þurfum að enda þetta almennilega.“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, vildi kannski ekki viðurkenna að sigur KA hefði verið sanngjarn en sagði að leikurinn hafi verið skemmtilegur. „Við reyndum hvað við gátum, það er erfitt að segja hverjir voru betri en það skiptir engu máli. Bara til hamingju KA menn,“ sagði hann og hrósaði baráttunni í KA-mönnum. „Mér fannst KA-menn leggja líf og sál í þetta. Þeir fórnuðu sér fyrir hvert einasta skot, voru beinskeyttir í löngu boltunum sínum og unnu seinni boltana vel. Var þetta sanngjarn sigur? Ég veit það ekki. Það skiptir engu máli,“ sagði Arnar.