Fara í efni
KA

Verðskuldaður sigur Þróttar á Þór/KA

Hulda Björg Hannesdóttir fagnar eftir að hún kom Þór/KA í 1:0. Lengst til vinstri er Colleen Kennedy, ekki síður glöð. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þróttur sigraði Þór/KA, 3:1, í dag í efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Þór/KA er nú með sex stig að loknum sex leikjum, í sjöunda sæti, en með sigrinum fór Þróttur upp í 4. sæti, hefur níu stig.

Óvænt úrslit urðu í deildinni í dag; Íslandsmeistarar Breiðabliks töpuðu 3:1 á heimavelli gegn nýliðum Keflavíkur og Selfyssingar, sem voru taplausir, lágu fyrir ÍBV í Eyjum, 2:1.

Fyrri hálfleikur Þórs/KA og Þróttar var afar tíðindalítill og markalaus. Hulda Björg Hannesdóttir kom Stelpunum okkar svo yfir snemma í seinni hálfeik með skalla eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur; afar vel gert en varnarmenn voru að vísu grunsamlega langt frá Huldu.

Þróttarar jöfnuðu á 67. mínútu úr vítaspyrnu. Sennilega hafa fáar eða jafnvel engin verið dæmd fyrir jafn litlar sakir í sögu Þórsvallar; Katherine Amanda Cousins og Rakel Sjöfn Stefánsdóttir börðumst um boltann yst í teignum, Rakel Sjöfn snerti mótherjann með hægri hendi, Cousins datt með tilþrifum og dómarinn gekk í gildruna. Blés þegar í flautuna, hátt og snjallt og benti umsvifalaust á vítapunktinn. Cousins skoraði og það var reyndar mjög sanngjarnt að Þróttarar jöfnuðu, miðað við gang leiksins, en ekki viðunandi að þeir kæmust á bragðið með þessum hætti.

Aðeins liðu tæpar fjórar mínútur þar til Þróttur komst yfir. Jelena Tinna Kujundzic kom boltanum í markið úr þvögu eftir hornspyrnu og það var svo á síðustu andartökum leiksins sem Shea Moyer gerði þriðja mark Þróttar.

Það verður að segjast að sigur Þróttar var sanngjarn. Heimaliðið olli miklum vonbrigðum, gekk illa að halda boltanum og ógnaði marki andstæðinganna sjaldan.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Hér að neðan er atvikið þegar Þróttarar fengu vítið sem þeir jöfnuðu úr. Ekki að undra að Rakel Sjöfn Stefánsdóttir, sem dæmt var á, sé undrandi þegar hún áttar sig á úrskurði dómarans.