Fara í efni
KA

Valur, KR og Östers IF vilja kaupa Þorra

Þorri Mar Þórisson með boltann í leik gegn FH í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Allar líkur eru á að knattspyrnumaðurinn Þorri Mar Þórisson sé á förum frá KA. Valur og KR hafa bæði lagt fram tilboð í bakvörðinn og sænska félagið Östers IF hefur einnig sýnt áhuga á að kaupa Dalvíkinginn skv. heimildum Akureyri.net. Östers IF leikur í næst efstu deild í Svíþjóð. Þjálfari liðsins er Srdjan Tufegdzic, fyrrverandi þjálfari KA.

Þorri var ekki í leikmannahópnum þegar KA tók á HK í Bestu deildinni á sunnudaginn og verður ekki með í för þegar liðið heldur til Írlands og leikur við Dundalk í Sambandsdeild Evópu á fimmtudaginn.

Fótboltamiðillinn 433.is greindi frá því í morgun að tvö íslensk lið hafi gert KA tilboð í Þorra og eitt erlent lið sýnt honum áhuga. Heimildir Akureyri.net herma, eins og að framan greinir, að þar sé um að ræða KR og Östers IF. „Eins og staðan er hefur það ekki farið lengra en það að við höfum sagt nei,“ sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, við 433.is í morgun. Hann útilokar þó ekki að Þorri yfirgefi KA í glugganum. „Það kemur til greina að selja alla leikmenn,“ hefur miðillinn eftir Sævari.

Þorri, sem er 24 ára, á tvö ár eftir af samningi sínum við KA.