Fara í efni
KA

Valsmenn miklu betri en KA-menn eygja von

Agnar Smári Jónsson skorar í níunda skipti í kvöld, á síðustu sekúndunum - með þrumuskoti langt utan af velli - og kemur Valsmönnum fjórum mörkum yfir á ný. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Leikmenn KA færðu þjálfara sínum, Jónatan Magnússyni, ekki þá gjöf sem hann hefur örugglega helst óskað sér á afmælisdaginn. Þeir töpuðu fyrir Valsmönnum, 30:26, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu – en það eru ekki bara úrslitin sem valda vonbrigðum heldur frammistaða KA-manna.

KA-menn höfðu hreinlega ekki roð við gestunum langtímum saman Val í kvöld; KA var 10 mörkum undir þegar tæpar 10 mínútur voru eftir en þeir gulu og bláu klóruðu í bakkann með mjög góðum kafla í lokin; náðu að bjarga því sem bjargað varð, og eiga fyrir vikið enn von um að komast áfram. En þá þarf reyndar mikið að breytast; liðin mætast aftur á föstudaginn, þá í Valsheimilinu og til að eiga möguleika þurfa KA-menn að leika miklu betur en í kvöld. Markakóngurinn Árni Bragi Eyjólfsson og Nicholas Satchwell, markvörður, geta ekki dregið vagninn nánast einir á löngum köflum. Árni Bragi gerði 15 mörk í kvöld og Satchwell varði 15 skot.

Það sýndi sig í kvöld að breiddin er meiri hjá Val og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari liðsins, nýtti sér það til hins ýtrasta. Gat hvílt byrjunarliðsmenn síðari hluta fyrri háfleiks og þeir mættu síðan ferskir til leiks í upphafi þess seinni og juku muninn fljótlega úr þremur mörkum í sjö. Gerðu fögur fyrstu mörkin.

Staðan versnaði jafnt og þétt hjá KA og munurinn varð mestur 10 mörk, sem fyrr segir. Þegar þar var komið sögu gerðist hvort tveggja að KA-menn lifnuðu við og Valsmenn gáfu töluvert eftir, enda skipti Snorri nokkrum sinna bestu manna út af aftur. Sá kafli gerir það að verkum að KA menn eygja enn von um að komast áfram í undanúrslitin en vonandi fyrir þá mun síðasta mark leiksins í kvöld ekki ráða úrslitum þegar lagt verður saman á föstudagskvöldið. Eftir að Árni Bragi minnkaði muninn í þrjú mörk með 15. mark sínu, þegar flestir töldu leiknum nánast lokið, flýttu Valsmenn sér að taka miðju og Agnar Smári Jónsson lét vaða langt utan af velli og skoraði með þrumufleyg um það leyti sem flautað var til leiksloka. KA-menn áttuðu sig ekki á hættunni og sváfu á verðinum. Agnar var frábær í leiknum og gerði níu mörk í 10 skotum.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Árni Bragi Eyjólfsson eftir að hann gerði eitt 15 marka sinna í leiknum.

Nicholas Satchwell, markvörður KA, rakst á stöngina þegar hann freistaðist til að verja skot Agnars Smára Jónssonar á síðustu sekúndunni. Markmaðurinn fékk skurð á kinn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.