Fara í efni
KA

Valsarar héldu sínu striki og unnu KA-menn

Tjörvi Týr Gíslason gerði sex mörk fyrir Val í kvöld og nældi í tvö stig en glataði hins vegar einni keppnistreyju ... Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslands- og bikarmeistarar Vals unnu KA 36:32 í KA-heimilinu í kvöld í Olísdeildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Valsmenn eru lang efstir í deildinni en KA er sem fyrr í 10. sæti með 11 stig. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og skemmtilegur og staðan 17:17 að honum loknum. Snemma í seinni hálfleik gerðu Valsmenn svo fimm mörk í röð og lögðu þar með grunninn að öruggum og sanngjörnum sigri; þeir komust mest sex mörkum yfir og KA komst ekki nær þeim en þremur mörkum.

Valsmenn eru einfaldlega ógnarsterkir. Þeir léku afar góða vörn í seinni hálfleik og sóknin er yfirleitt létt og leikandi. Því var hins vegar öfugt farið hjá KA, eftir góðan fyrri hálfleik. Í þeim seinni opnaðist vörnin oft illa og KA-strákarnir lentu í vandræðum í sókninni vegna öflugum gestum sínum.

Mörk KA: Ólafur Gústafsson 9, Einar Rafn Eiðsson 8 (3 víti), Gauti Gunnarsson 7, Dagur Gautason 2, Allan Nordberg 2, Dagur Árni Heimisson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 3 (14,8%), Nicholas Satchwell 2 (14,2%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

KA er í 10. sæti með 11 stig, sem fyrr segir. Sjö umferðir eru eftir og næstu lið fyrir ofan, Haukar og ÍBV, eru með 14 stig.

Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari fundar með Valsaranum Alexander Örn Júlíusson og Ólafur Gústafsson, sem var markahæstur KA-manna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson