Fara í efni
KA

Úrslitakeppnin: KA tekur á móti Val í dag

Jöfnunarmark KA gegn Val í blálokin! Sigþór Gunnar Jónsson smeygir sér á milli Antons Rúnarssonar (t.v.) og Alexanders Arnar Júlíussonar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn hefja leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildarinnar, í kvöld þegar þeir taka á móti Valsmönnum í KA-heimilinu. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og ástæða til þess að hvetja sem allra flesta til þess að mæta á staðinn og hvetja KA-menn til dáða. Fyrir þá sem ekki komast er rétt að benda á að leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Valur vann seinni leik liðanna í deildarkeppninni, 31:27 á heimavelli sínum 24. maí, á lokasprettinum, en fyrri viðureignin, á Akureyri, var æsispennandi og lauk með jafntefli, 27:27.

KA-menn voru þekktir fyrir það í vetur að gefast aldrei upp þótt útlitið væri ekki bjart.  Í nefndum leik við Val í KA-heimilinu um miðjan febrúar voru gestirnir þremur mörkum yfir þegar tvær mínútur voru eftir en KA gerði þrjú síðustu mörkin – það síðasta þegar fimm sekúndur voru eftir. Eftir leikinn sagði Akureyri.net meðal annars: 

„Tvær af bestu óskráðu reglum handboltamanna (og mun fleiri auðvitað) eru: Aldrei að gefast upp! og Leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar af. KA-menn mundu báðar þessar reglur í kvöld, þegar þeir gerðu jafntefli, 27:27, við Valsmenn í Olísdeildinni í KA-heimilinu. Valsmenn virtust aftur á móti búnir að steingleyma síðari reglunni.“ Nánar hér um leikinn eftirminnilega í KA-heimilinu.

Keppnin öðruvísi en áður

Úrslitakeppnin er með nýju sniði þetta árið vegna þess hve mótið dróst vegna samkomutakmarkana. Í stað þriggja leikja, þar sem sigra þurfti í tvígang til að komast áfram, verða aðeins tveir leikir.

Leikið verður heima og að heiman í hverri umferð og á liðið sem varð ofar í deildinni síðari leikinn á heimavelli. 

Ef liðin hafa jafnmörg stig eftir tvo leiki skal vinningsröð liða ákveðin í þessari röð:

a) markamismunur.

b) fleiri mörk skoruð á útivelli.

c) vítakastkeppni.